Handbolti

Frakkar löbbuðu yfir Þjóðverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landsliðsmenn Frakka bregða á leik.
Landsliðsmenn Frakka bregða á leik. Nordic Photos / AFP

Frakkar eru enn með fullt hús stiga í A-riðli etir auðveldan sigur á Þýskalandi í kvöld, 30-23.

Eftir að jafnræði var með liðunum í upphafi leiks skoruðu Frakkar fjögur mörk þegar um stundarfjórðungur var liðinn og litu aldrei til baka eftir það. Staðan var 13-10 í hálfleik.

Heimsmeistararnir rúlluðu svo yfir Þjóðverja í upphafi síðari hálfleiks með öflugum varnarleik og markvörslu. Þeir komust fljótlega átta mörkum yfir, 20-12, og gerðu þar með út um leikinn þó svo að enn væru 20 mínútur eftir af honum.

Þjóðverjar áttu einfaldlega engin svör við varnarleik Frakka og fóru ítrekað illa að ráði sínu. Silvio Heinevetter, markvörður Þýskalands, átti fínan leik en það dugði ekki til.

Frakkar sýndu í þessum leik að þeir eru enn með besta lið heims. Þeir hafa unnið alla leiki sína til þessa í A-riðli með yfirburðum en mæta Spánverjum á morgun.

Ísland mun mæta Frökkum í milliriðlakeppninni og ljóst að það verður erfiður leikur. Fyrst þarf Ísland að klára sinn riðil og það helst með sigri á Norðmönnum á morgun.

Um gríðarlegan mikilvægan leik er að ræða fyrir bæði lið. Þjóðverjar töpuðu síðast fyrir Spánverjum og verða helst að vinna í kvöld ætli þeir sér að ná markmiði sínu um að komast í undanúrslit.

Sóknarleikurinn hjá Frökkum dreifðist á marga menn. William Accambray var markahæstur með fimm mörk en fjórir leikmenn skoruðu fjögur mörk. Lars Kaufmann og Michael Kraus skoruðu sex mörk hvor fyrir Þýskaland.

Thierry Omeyer átti stórleik og varði fimmtán skot en Silvio Heinevetter þrettán í marki Þýskalands.

Þá vann Túnis sigur á Barein, 28-21, í sama riðli í dag. Síðar í kvöld eigast svo við Spánn og Egyptaland og verður þeim leik einnig lýst á Boltavakt Vísis.

Frakkland er með átta stig í efsta sæti riðilsins. Spánn er nú með sex stig en getur komist í átta í kvöld. Þessi lið mætast á morgun.

Þýskaland er enn með fjögur stig en Túnis er með tvö. Þessi lið mætast á morgun en líklegt er að Þjóðverjar komist áfram þó svo að liðið myndi tapa leiknum með 3-4 marka mun. Það veltur þó á úrslitum í lokaleik kvöldsins í A-riðli.

Smelltu hér til að opna Boltavaktina: Þýskaland - Frakkland.

Úrslit, staðan og næstu leikir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×