Handbolti

Hvað gerist í A-riðli á HM í dag?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Útreikningarnir eru flóknir - sjálfsagt er þó Heiner Brand vel meðvitaður um möguleika Þýskalands í dag.
Útreikningarnir eru flóknir - sjálfsagt er þó Heiner Brand vel meðvitaður um möguleika Þýskalands í dag. Nordic Photos / AFP
Lokaumferð riðlakeppninnar á HM í handbolta fer fram í dag. Vísir kíkir á möguleikana í A-riðli en Ísland mun mæta þremur efstu liðunum úr þeim riðli í milliriðlakeppninni.

Frakkland og Spánn eru bæði með fullt hús stiga og mætast í lokaleik riðilsins í kvöld. Þau eru bæði örugg áfram í milliriðlakeppnina með tvö stig og ræðst það í kvöld hvort liðið fer með fjögur stig eða þá hvort bæði taka þrjú stig með sér.

Sigurliðið í þessum stig mun taka með sér fjögur stig í milliriðlakeppnina. Verði niðurstaðan jafntefli fara bæði lið með þrjú stig í milliriðilinn í Jönköping.

Þýskaland ekki öruggt áfram

Þýskaland er ekki öruggt með þriðja sæti A-riðils og þar með sæti í milliriðlinum.

Þýskaland og Túnis eigast við klukkan 17.30 í dag. Þjóðverjar eru nú með fjögur stig og Túnis tvö.

Ef Túnis vinnur leikinn, og bæði lið verða með fjögur stig í 3.-4. sæti, gildir árangur í innbyrðisviðureignum. Túnis er því öruggt áfram með sigrinum.

Egyptar úr leik en geta enn haft áhrif

Hins vegar flækjast málin ef Egyptaland vinnur Barein klukkan 17.00 í dag. Þá verða Egyptar einnig með fjögur stig.

Þá þarf að reikna út markatölu þessara þriggja liða - Túnis, Egyptalands og Þýskalands - í innbyrðisviðureignum þeirra.

Sú markatala liggur auðvitað ekki fyrir enn þar sem að Þýskaland og Túnis eiga eftir að mætast. Hins vegar er ljóst að Egyptaland er með mínus eitt mark í markatölu eftir sína leiki og það mun aldrei duga til að skáka bæði Túnisum og Þjóðverjum. Egyptar eru því úr leik.

En Þjóðverjar græða nú á því að þeir unnu Egypta með fimm marka mun auk þess sem að Egyptar unnu Túnisa með fjögurra marka mun. Túnis þarf því vinna upp níu marka sveiflu í leiknum gegn Þjóðverjum í dag.

Það þýðir eftirfarandi:

Túnis vinnur með fjórum mörkum eða minna: Þýskaland áfram.

Túnis vinnur með minnst fimm marka mun: Túnis áfram.

Þýskaland hefur því efni á að tapa með fjögurra marka mun í kvöld - en aðeins ef að Egyptaland vinnur Barein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×