Handbolti

Lars: Hann er alveg ískaldur, kannski er hann Íslendingur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lars Christiansen.
Lars Christiansen. Mynd/AFP

Lars Christiansen, hinn eldhressi fyrirliði danska landsliðsins í handknattleik, var að vonum ánægður eftir 35-27 sigur gegn Serbum á Heimsmeistaramótinu í handknattleik en leikurinn fór fram í Malmö í kvöld. Danir eru því með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og auk þess líklega búnir að tryggja að þeir taka að minnsta kosti tvö stig með sér áfram í milliriðilinn.

„Sigurinn var mjög mikilvægur því hann snerist um það hvort liðið tæki með sér stig í milliriðilinn. Við vissum að Serbarnir væru með sterkt lið og að leikurinn yrði erfiður. Við náðum hinsvegar yfirhöndinni strax í upphafi og vorum mjög grimmir í vörninni.

Við ætluðum okkur að hlaupa í 60 mínútur í leiknum og þeir áttu ekki til nægan kraft í það og réðu ekki við tempóið. Þetta leit kannski út fyrir að vera einfalt en við þurftum að hafa mikið fyrir þessum sigri," sagði Christiansen í samtali við Vísi.

„Við erum með 16 mjög sterka leikmenn í okkar hópi og allir vilja sýna hvað í þeim býr. Okkar styrkleiki felst í því hvað hópurinn er breiður og við veikjumst ekki þó við skiptum mönnum út. Það eru margir erfiðir leikir framundan og nú þurfum við að taka næsta skref. Þetta er bara byrjunin hjá okkkur," bætti Christansen við.













Rasmus Lauge.Mynd/AFP
Danir urðu fyrir áfalli í gærmorgun þegar í ljós kom að einn af þeirra lykilmönnum, leikstjórnandinn Thomas Mogensen, yrði ekki meira með í mótinu vegna meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn Rúmenum í gær.

„Það var auðvitað mikið áfall. Thomas hafði spilað mjög vel í mótinu til þessa og þetta var alveg hræðilegt fyrir hann og okkur. Nú kemur 19 ára strákur inn í liðið, sem gerði mark úr sínu fyrsta skoti á mótinu gegn Serbum. Hann er alveg ískaldur, kannski er hann Íslendingur?" sagði Christansen og hló. Hann átti þar við Rasmus Lauge sem skoraði í kvöld eftir að hafa einungis verið inni á vellinum í 10 sekúndur.

Danir mæta Alsíringum á miðvikudag sem unnu Rúmena í dag og á fimmtudaginn er komið að stórleik riðilsins þegar danska liðið mætir því króatíska.

„Við verðum að vinna leikinn gegn Alsír og ég tel að við munum gera það. Sá sem stendur uppi sem sigurvegari í leiknum á fimmtudag mun taka með sér fjögur stig í milliriðilinn og leikurinn því mjög mikilvægur. Við vitum að 9500 Danir hafa keypt miða á leikinn gegn Króatíu og það verður án efa frábær stemmning," sagði Christansen að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×