Viðskipti innlent

Enn hafa engin lán fengist vegna Búðarhálsvirkjunar

Búðarhálsvirkjun. Mynd/Landsvirkjun
Búðarhálsvirkjun. Mynd/Landsvirkjun
Engin lán hafa enn fengist til Búðarhálsvirkjunar og neyðast Landsvirkjun og Ístak nú til að endursemja um framvindu verksins svo framkvæmdir stöðvist ekki.

Haft hefur verið á orði að virkjanaframkvæmdirnar við Búðarháls gætu orðið táknrænt upphaf endurreisnar efnahagslífsins. Landsvirkjun ákvað að heimila Ístaki að hefja vinnu þar í vetrarbyrjun, en þó aðeins takmörkuð undirbúningsverk fyrir allt að 500 milljónir króna, og voru þá vonir bundnar við að langtímafjármögnun væri að komast í höfn. Þær vonir hafa ítrekað brugðist og hefur Landsvirkjun enn ekki geta fengið nein lán til að koma Búðarhálsi á fulla ferð. Nú sér fyrir endann á undirbúningsvinnunni, sem búið var að heimila á virkjunarsvæðinu, og hafa Landsvirkjun og Ístak því neyðst til að setjast niður til að semja um hvernig verkinu þar verður fram haldið.

Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 er stefnt að því að gengið verði frá samkomulagi eftir helgi sem gerir ráð fyrir að Landsvirkjun heimilar Ístaki að hefja vinnu við bæði stöðvarhús og inntaksstíflu, en þó með fyrirvara um að hægt sé að stöðva verkið, ef ekki rætist úr fjármögnun á næstunni. Þau mál gætu farið að skýrast því vonir eru bundnar við að lán fáist fljótlega frá Norræna fjárfestingarbankanum. Fjárfestingarbanki Evrópu virðist hins vegar ætla að bíða með lánveitingu þar til Alþingi hefur staðfest Icesave-samningana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×