Viðskipti innlent

Greining: Samþykkt Icesave markar tímamót

„Samþykkt Icesave-samkomulagsins mun marka tímamót í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir hrun. Samþykkt hins nýja samkomulags mun að öllum líkindum hafa jákvæð áhrif á aðgang íslenskra aðila að erlendu fjármagni og lækka áhættuálag á íslenskar fjáreignir."

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um Icesave málið. Nýji Icesave samningurinn verður að öllum líkindum borin undir atkvæði á Alþingi á morgun, miðvikudag.

Í Morgunkorninu segir að lánshæfismatsfyrirtækin hafa gefið það út að samþykkt mun styrkja lánshæfiseinkunn ríkissjóðs og mun það hafa sín áhrif á aðgengi að erlendu fjármagni og þau kjör sem þar bjóðast.

Moody's hefur t.d. lýst því yfir að fyrirtækið muni hækka lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands verði samkomulagið samþykkt, en skuldabréf íslenska ríkisins í erlendri og innlendri mynt til lengri tíma hafa verið með lægstu einkunn sem gefin er í fjárfestingarflokki sem merkir að ef hún yrði lækkuð myndi hún falla niður í spákaupmennskuflokk (e. Junk Bond).

Horfur um einkunn ríkissjóðs eru neikvæðar hjá öllum stóru matsfyrirtækjunum þremur. Þá má geta þess að í síðustu skýrslu sendinefndar AGS var þess getið að hinn nýi Icesave-samningur tengdist vilja íslenskra stjórnvalda til að mæta skilyrðum sumra lánveitenda í efnahagsáætlun sjóðsins og stjórnvalda.

Icesave-samkomulagið var afgreitt frá fjárlaganefnd í gær til þriðju og síðustu umræðu á Alþingi. Reiknað er með að atkvæðagreiðsla um málið verði á morgun, og í ljósi þess hvernig atkvæði féllu við afgreiðslu málsins eftir aðra umræðu má telja líklegt að það verði samþykkt.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×