Handbolti

Svíar í góðum málum eftir sigur á Króötum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Sjöstrand var frábær í kvöld.
Johan Sjöstrand var frábær í kvöld. Mynd/AFP
Svíar unnu fjögurra marka sigur á Króötum, 29-25, í milliriðli tvö á HM í handbolta í Svíþjóð í dag. Þetta var annað tap Króata í síðustu þremur leikjum og það þýðir að Króatar eiga ekki lengur möguleika á að komast í undanúrslitin.

Svíar eru með sex stig eins og Danir (sem leika seinna í kvöld) en Króatar eru aðeins með þrjú stig og geta því ekki náð tvö efstu liðunum í milliriðlinum. Pólverjar og Argentínumenn eiga enn möguleika á því að ná Svíum en það verður erfitt.

Það var jafnt á öllum tölum fram eftir fyrri hálfleik en Svíar unnu síðustu sjö mínútur hálfleiksins 4-1 og voru því 15-12 yfir í hálfleik.

Svíar skoruðu tvö fyrstu mörk fyrri hálfleiksins og voru því komnir með fimm marka forskot, 17-12. Króatar náðu aldrei að vinna þenann mun upp, þeir minnkuðu muninn niður í tvö mörk en Svíar slitu sig alltaf aftur frá þeim.

Johan Sjöstrand fór á kostum í marki sænska landsliðsins og var öðrum fremur besti leikmaðurinn á vellinum. Sjöstrand varði alls 23 skot eða 49 prósent skotanna sem komu á hann.

Dalibor Doder skoraði 8 mörk úr 12 skotum hjá Svíum og Niclas Ekberg nýtti öll sex skotin sín. Vedran Zrnic skoraði 9 mörk fyrir Króata þar af fimm af vítalínunni. Markverðir Króata vörðu aðeins 7 skot í leiknum eða sextán færri skot en markvörður Svía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×