Handbolti

Þýskir fjölmiðlar gagnrýna Heiner Brand

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Mynd/Valli

Þýskir fjölmiðlar eru allt annað en ánægðir með gengi karlalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í handbolta í Svíþjóð og gagnrýna þeir Heiner Brand þjálfara liðsins harðlega. Eftir stórtap Þjóðverja gegn Norðmönnum í gær var það ljóst að Þjóðverjar leika um 11. sætið og er það slakasti árangur Þjóðverja á HM frá upphafi.

Þýskaland varð heimsmeistari árið 2007 á heimavelli undir stjórn Brand og hann er með samning við þýska handknattleikssambandið út árið 2013.

Stærsta dagblað Þýskalands, Bild, telur að leikmenn liðsins hafi alls ekki lagt sig fram á HM og er á þeirri skoðun að Brand sé ekki rétti maðurinn til að stýra liðinu.

„Er Heiner Brand rétti þjálfarinn eða er hann útbrunninn eftir 14 ár í þjálfarastólnum," segir m.a. í Bild. Brand hefur stjórnað liðinu frá árinu 1997 en hann er 58 ára gamall. Árangur hans er engu að síður frábær en Þjóðverjar sigruðu á Evrópumeistaramótinu árið 2004 og Brand varð heimsmeistari sem leikmaður árið 1978.

Horst Meier varaforseti þýska handknattleikssambandsins segir að þjálfarastarfið sé ekki til umræðu hjá sambandinu. „Brand á það ekki skilið að við séum að velta þessu fyrir okkur. Þjálfarastaðan er ekki til umræðu. Mótið fór illa hjá okkur, slíkir hlutir gerast í íþróttum. Fyrir tveimur árum endaði Spánn í 13. sæti, en þeir eru núna í undanúrslitum," sagði Meier í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×