Handbolti

Fyrsti fyrirliðinn yfir tíu marka múrinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur setti met á móti Brössum.
Guðjón Valur setti met á móti Brössum. Fréttablaðið/Valli

Guðjón Valur Sigurðsson, tók við fyrirliðabandinu af Ólafi Stefánssyni fyrir Brasilíuleikinn á laugardagskvöldið og endurskrifaði síðan HM-sögu Íslands í leiknum. Guðjón skoraði nefnilega ellefu mörk og varð fyrsti fyrirliði Íslands frá upphafi sem nær því að brjóta tíu marka múrinn í úrslitakeppni HM.

Guðjón Valur setti nýtt met þegar hann skoraði úr hraðaupphlaupi og kom íslenska liðinu í 26-21 í leiknum. Guðjón Valur skoraði mörkin sín ellefu á móti Brasilíu úr þrettán skotum en sjö þeirra komu úr hraðaupphlaupum.

Guðjón Valur bætti þarna átta ára met Dags Sigurðssonar í leiknum en Dagur skoraði níu mörk í 33-29 sigurleik á móti Póllandi á HM í Portúgal 2003. Dagur skoraði 9 mörk úr 14 skotum en átta markanna skoraði hann með langskotum og eitt kom úr vítakasti.

Dagur rak af sér slyðruorðið í þessum leik á móti Portúgal en hann hafði „aðeins" skorað samtals 7 mörk í fyrstu fimm leikjum Íslands á mótinu.

Dagur hafði á sínum tíma bætt met Geirs Sveinssonar sem skoraði þrisvar sinnum sjö mörk í leik á HM þar sem hann bar fyrirliðabandið. Geir náði þessu á þremur heimsmeistarakeppnum í röð en enginn leikmaður hefur borið fyrirliðabandið í fleiri HM-leikjum en einmitt Geir.

Ólafur Stefánsson hefur þrisvar sinnum skorað meira en tíu mörk í leik á móti en hefur ekki náð að brjóta tíu marka múrinn síðan hann tók við fyrirliðabandinu af Degi. Ólafur hefur mest skorað átta mörk með fyrirliðabandið en það gerði hann í tvígang á HM í Þýskalandi 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×