Handbolti

Dramatískt jafntefli hjá Serbum og Króötum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Slavko Goluza, þjálfari Króatíu.
Slavko Goluza, þjálfari Króatíu. Nordic Photos / AFP

Króatía tapaði sínu fyrsta stigi á HM í handbolta í kvöld er liðið gerði jafntefli við Serbíu, 24-24.

Leikurinn var í járnum í hálfleik og skiptust liðin á að hafa forystuna. Staðan í hálfleik var 13-12, Serbum í vil.

Króatar byrjuðu með látum í seinni hálfleik og skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkunum. Serbarnir neituðu þó að gefast upp og unnu sig hægt og rólega aftur inn í leikinn.

Þeir voru með frumkvæðið síðustu tólf mínúturnar og tveggja marka forystu þegar sjö mínútur voru eftir en þá var staðan 24-22.

Serbar skoruðu því ekki síðustu sjö mínútur leiksins og náðu Króatar að jafna þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Einn besti handboltamaður heims, Ivano Balic, fékk tækifæri til að tryggja Króötum sigur undir lokin en Darko Stanic markvörður frá honum. Hann varði alls þrettán skot í leiknum.

Markahæstur hjá Serbíu var Ivan Nikcevic með sjö mörk og Marki Vujin kom næstur með fimm mörk.

Igor Vori skoraði átta mörk fyrir Króatíu og Vedran Zrnic skoraði sjö.

Króatar eru með sjö stig en Danir geta komist á topp C-riðils í kvöld með sigri á Alsír í kvöld.

Serbar eru með fimm stig og eru öruggir áfram ef Alsír nær ekki stigi gegn Dönum í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×