Handbolti

Jafntefli hjá Síle og Slóvakíu í ótrúlegum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rodrigo Salinas í leik með Chile á HM.
Rodrigo Salinas í leik með Chile á HM. Nordic Photos / AFP

Síle náði í sitt fyrsta stig frá upphafi á HM í handbolta er liðið gerði jafntefli við Slóvakíu í dramatískum leik í D-riðli í dag.

Lokatölur voru 29-29 en Slóvakar skoruðu lokamarkið á lokasekúndu leiksins. Frantisek Sulc var þar að verki með þrumufleyg.

Sílemenn komst reyndar í sókn þegar um 45 sekúndur voru til leiksloka en töpuðu boltanum. Slóvakar höfðu um 20 sekúndur til að jafna metin og náðu því á síðustu sekúndunni.

Síle var með undirtökin í leiknum frá upphafi en staðan í hálfleik var 15-12, þeim í vil. Slóvakar skoruðu svo fimm af sjö síðustu mörkum leiksins.

Slóvakar fengu einnig sitt fyrsta stig á HM í Svíþjóð í dag en frammistaða þeirra hefur valdið vonbrigðum. Þeir voru í tíunda sæti á HM í Króatíu fyrir tveimur árum.

Markahæsti leikmaður Síle var Emil Feuchtmann með ellefu mörk og Marco Antonio Oneto, línumaðurinn sterki í liði Barcelona, skoraði fimm mörk.

Hjá Slóvökum skoraði hetjan Sulc alls sjö mörk í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×