Handbolti

Wilbek: Við gerðum mistök og þeir nýttu sér það

Smári Jökull Jónsson í Malmö skrifar
Wibek á hliðarlínunni í dag, með Claude Onesta þjálfara Frakka í bakgrunni
Wibek á hliðarlínunni í dag, með Claude Onesta þjálfara Frakka í bakgrunni Mynd / AFP
Ulrik Wilbek þjálfari Dana var svekktur en þó stoltur af sínum mönnum eftir tapið gegn Frökkum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í handknattleik, en leikið var í Malmö í kvöld.

Silfrið er því staðreynd hjá Dönum sem geta verið ánægðir með sína frammistöðu á mótinu.

„Við börðumst mjög vel og náðum að koma til baka í lokin eftir að Frakkarnir höfðu haft yfirhöndina. Við erum stoltir af okkar frammistöðu en við vorum of þreyttir í lokin til að ógna Frökkunum enn frekar," sagði Wilbek í samtali við Vísi eftir leik.

„Það meiddust tveir leikmenn hjá okkur í leiknum og við áttum ekki nógu marga leikmenn í lokin til að gera gæfumuninn. En þetta snýst líka um heppni og hún var ekki með okkur í liði í framlengingunni. Frakkarnir hafa meiri reynslu í svona stöðu, við gerðum nokkur mistök og þeir nýttu sér það," bætti Wilbek við.

Fyrir mótið sagði Wilbek að markmið Dana væri að ná einu af sjö efstu sætunum og þar með möguleikanum á að spila um sæti á Ólympíuleikunum í London á næsta ári. Frammistaða liðsins fór því framúr þeirra eigin vonum og Wibek var ánægður þegar hann leit á mótið í heild sinni.

„Við spiluðum tíu góða leiki. Það er sjaldgæft að spila vel í tíu leikjum í röð, við höfum skorað mikið af mörkum, spilað skemmtilegan handbolta og ég er mjög stoltur af liðinu," sagði Wilbek við Vísi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×