Viðskipti innlent

Endurskoðun AGS traustsyfirlýsing

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. Mynd/Anton Brink
Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun í kvöld afgreiða fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland. Efnahags- og viðskiptaráðherra segir það traustsyfirlýsingu og viðurkenningu á því að ríkisstjórnin sé á réttri leið.

Stjórn sjóðsins kom saman undir kvöld í Washington til þess meðal annars að fjalla um fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland.

Aðspurður hvaða þýðingu þetta hafi fyrir Ísland segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra: „Við fáum þá áfram aðgang að fjármunum bæði frá sjóðnum og Norðurlöndum sem er okkur mikilvægt. Það er ekki síður viðurkenning á því að við höfum haldið vel á málum á undanförnum mánuðum. Þeir horfa sérstaklega til þess hversu vel hefur gengið við gerð fjárlaga fyrir þetta ár."

Þetta eru 160 milljónir Bandaríkjadala sem eru afgreiddar við þessa fjórðu endurskoðun, jafnvirði tæplega 19 milljarða króna.

„Við höfum aðgang að þessum forða. Hann skiptir líka máli þegar kemur að því að létta af hömlum á fjármagnsflutningum þegar kemur að leysa úr

gjaldeyrishöftunum. Það er mjög mikilvægt fyrir land sem þarf að glíma við skuldsetningu eins og við þurfum að gera núna að hafa aðgang að fjármagni," segir Árni Páll.

Samstarfinu við sjóðinn á að ljúka í ágúst næstkomandi. Að sögn Árna Páls er það á áætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×