Handbolti

Sigurður: Þýðir ekkert að spila á meiddum leikmönnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það hefur verið hart tekið á Alexander Peterssyni.
Það hefur verið hart tekið á Alexander Peterssyni. Mynd/Valli
Sigurður Bjarnason, einn sérfræðinga Vísis um HM í handbolta, er vongóður um íslenskan sigur í leiknum gegn Noregi í dag. Leikurinn hefst klukkan 18.10 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Leikurinn er í síðustu umferð riðlakeppninnar en, eins og Sigurður bendir á, er hann í raun eins og sá fyrsti í milliriðlakeppninni. Bæði lið eru örugg áfram í milliriðil og hefur því leikurinn í kvöld áhrif á hversu mörg stig liðin fara með sér þangað.

„Mér líst mjög vel á leikinn enda komnir nú út í fyrsta leik í milliriðli í raun. Við tökum þetta. Ég vona að við fáum jafnan og skemmtilegan leik eins og gegn Austurríki og að við þurfum að vera á tánum allan leikinnn. Ég veit samt ekki hvort leikurinn verði þannig."

„Það verður lykilatriði að við höldum sama dampi í varnarleiknum okkar eins og við gerðum í seinni hálfleik gegn Austurríki. Þá eiga Norsaragreyin engan séns. Það er þó alltaf mikilvægt að markverðirnir haldi áfram að standa sig vel eins og þeir hafa gert."

Mynd/Valli
Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson hafa báðir verið að glíma við meiðsli og bendir Sigurður á að það sé aldrei til góðs að treysta á meiddan leikmann. Báðir verða í hópnum í kvöld.

„Ef þeirra staða er slæm breytir það auðvitað stöðu himintunglanna. Við erum háðir þeim báðum. Ef annar dettur út getur hinn komið enn en ef þeir eru báðir eins og hálfir menn þá er alveg eins gott að ná í annan leikmann til að spila þessa stöðu. Það hefur margoft sýnt sig að það er ekki gott að þurfa að treysta á meiddan leikmann."

Ásgeir Örn Hallgrímsson getur einnig spilað stöðu hægri skyttu og Sigurður segir að það séu fleiri sem geti leyst hana. „Það væri þess vegna hægt að láta örvhentan leikmann spila þarna eða þá Snorra Stein og láta hann leysa inn á línu. Þórir er dæmi um leikmann sem hefur komið inn í liðið og slegið í gegn. Ásgeir Örn kann þetta allt saman og af hverju ekki að nota hann."

„Svo er aldrei að vita hvað gerist ef leikmenn eins og Sigurbergur Sveinsson fær tækifærið. Ef hann er 100 prósent heill getur hann komið inn og byrjað að raða inn mörkunum. Heill leikmaður getur nefnilega gert kraftaverk. Meiddur leikmaður finnur fyrir verkjum og er að spara sig."

Mynd/Valli
„Svo vona ég líka að línan komi sterk inn hjá okkur og að Robbi [Róbert Gunnarsson] og Kári [Kristjánsson] verði saman með 8-10 mörk í kvöld. Það væri mjög öflugt."

Norðmenn eru í erfiðri stöðu. Einu stigin sem þeir eiga möguleika á að taka með sér í milliriðlakeppnina eru stigin sem liðið getur fengið gegn Íslandi í kvöld. Gefur það norska liðinu aukinn kraft?

„Austurríki var í sömu stöðu," segir Sigurður. „Það var að duga eða drepast fyrir þá. Enda stóðu þeir í okkur í fyrri hálfleik. En um leið og við náðum forystunni í seinni hálfleik koðnuðu þeir einfaldlega niður. Sjálfstraustið var okkar megin og leikurinn var búinn þegar um tíu mínútur voru eftir."

„Svo eru Norðmennirnir með eitthvað helvítis væl í sínum fjölmiðlum. Þeir eru greinilega með sínar afsakanir á hreinu fyrir tapið. Á meðan erum við að undirbúa okkur fyrir sigur."

„Mér finnst einnig að strákarnir eigi að reyna að slá eitt metið í miðbót og vinna fimm leiki í röð á HM."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×