„Það er ekkert mál að láta í minni pokann,“ segir Kristján Berg, fisksali í Fiskikónginum, sem hefur orðið við kröfu pitsukeðjunnar Domino‘s um að hætta að auglýsa svokallaða Megafiskiviku.
Kristján fékk tölvupóst úr herbúðum Domino‘s á mánudag eftir að auglýsingarnar birtust fyrst. Þar sagði að rekstraraðili Domino‘s ætti einkaleyfi á vörumerkinu Megaviku og notkun Fiskikóngsins bryti líklega í bága við það, jafnvel þótt „fiski“ væri bætt í það mitt.
Kristján var í fyrstu ekki viss um hvernig bregðast skyldi við og afréð að halda auglýsingunum áfram í einn dag hið minnsta. Í gær gafst hann síðan upp.
„Ég þorði ekki að eiga á hættu að fá milljónasektir og lögfræðingaher yfir mig,“ segir hann. „Þannig að kóngurinn verður að hneigja sig og beygja fyrir stærri öflum í þessu ágæta þjóðfélagi.“
Kristján tilkynnti starfsmanni Domino‘s um þessa ákvörðun í tölvupósti og baðst afsökunar á að hafa troðið fyrirtækinu um tær.
„Ekkert stórmál,“ fékk hann til baka frá Domino‘s, ásamt uppástungu um að nota orðið Megadaga, sem ekki yrðu gerðar athugasemdir við.- sh
Fiskikóngurinn lúffar fyrir Domino‘s
