Viðskipti innlent

Lögbannskrafan gegn Matthíasi á sér enga stoð í lögum

„Af gefnu tilefni vil ég óska eftir að eftirfarandi komi fram. Lögbannskrafa Pálma Haraldssonar á hendur skjólstæðingi mínum, Matthíasi Imsland, á sér enga stoð í lögum né í skriflegum samningum."

Þetta kemur fram í yfirlýsing frá Jóhannesi Árnasyni hdl. lögmanns Matthíasar Imsland vegna lögbannskröfu Iceland Express gegn því að Matthías Imsland starfi fyrir nýtt flugfélag sem Skúli Mogensen er að koma á laggirnar.

Í yfirlýsingunni segir: „Ráðningarsamningur Matthíasar Imsland, og ákvæði um takmarkanir á atvinnufrelsi hans, féllu úr gildi um leið og Pálmi kaus að segja honum upp. Allir geta velt því fyrir sér hversu trúverðugt það er að aðili sem gerir út á mikilvægi samkeppni í auglýsingum, beiti á sama tíma þvingunarúrræðum til að bregða fæti fyrir samkeppni í flugrekstri. Öllum má jafnframt vera ljóst hvert sé raunverulegt markmið þessarar dæmalausu kröfugerðar – það er að sverta skjólstæðing minn og gera tilraun til að kasta rýrð á störf hans á nýjum vettvangi.

Nýlega hætti eftirmaður skjólstæðings míns hjá Iceland Express störfum eftir einungis 12 daga í starfi og mátti hann í kjölfarið þola atlögu í fjölmiðlum þar sem dylgjað var um störf hans. Nú er það skjólstæðingur minn sem er skotmarkið. Átelja verður vinnubrögð gerðarbeiðandans í málinu, en þau eru fyllilega óásættanleg og ótrúlegt er að slíkar rangar ásakanir séu hafðar uppi í þessum tilgangi.

Þess má að lokum geta að skoðað verður gaumgæfilega hvort ástæða sé til að höfða mál vegna rógs og tilhæfulausra ásakana sem fram koma í lögbannskröfunni. En fyrst verður farið fram á það að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafni þessari fráleitu kröfugerð Pálma Haraldssonar og mun ég mæta fyrir hönd skjólstæðings míns og leggja fram gögn því til stuðnings."


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×