Handbolti

Alexander: Ég reyni að gefa allt sem ég á

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar
 Alexander Petersson hefur spilað frábærlega í vörn og sókn með íslenska handboltalandsliðinu á HM í Svíþjóð. Hér sést hann í baráttu við Austurríkismann í sigurleiknum í fyrrakvöld.
Alexander Petersson hefur spilað frábærlega í vörn og sókn með íslenska handboltalandsliðinu á HM í Svíþjóð. Hér sést hann í baráttu við Austurríkismann í sigurleiknum í fyrrakvöld. Fréttablaðið/Valli

Íþróttamaður ársins, Alexander Petersson, hefur farið algjörlega á kostum með íslenska landsliðinu á HM. Skorað frábær mörk, tekið af skarið, staðið vaktina í vörninni með eindæmum vel og stolið fjölda bolta.

„Ég er mjög ánægður með mína frammistöðu hérna. Ég reyni að gefa allt sem ég á. Það geri ég alltaf. Það hefur bara gengið vel.“

Þetta hefur einnig verið tíðindamikið mót fyrir hann að því leyti að hann hefur gengið frá samningi við Rhein-Neckar Löwen, sem hann reyndar spilar ekki með fyrr en eftir eitt og hálft ár. Hann fer því ekki strax frá Berlin.

„Það er svolítið skrítið að semja við félag sem maður fer ekki til fyrr en eftir langan tíma. Það er samt mjög gott að vera öruggur með góðan samning næstu fjögur árin. Það veitir ákveðið öryggi sem er gott að hafa,“ sagði Alexander, sem hefur farið mikinn með Berlin í þýska handboltanum í vetur og telur sig hafa unnið fyrir góðum samningi hjá Löwen. Held að það séu flestir sammála honum um það.

„Ég er mjög ánægður með samninginn. Þetta er alvöru samningur og ég er búinn að vinna fyrir honum lengi. Ég get því ekki annað en brosað,“ sagði Alexander en forráðamenn Berlin sögðust ekki hafa getað keppt við peninga Jespers Nielsen, eiganda Löwen.

Það vakti nokkra athygli að Dagur Sigurðsson, þjálfari Berlin, vandaði Alexander ekki kveðjurnar í viðtali við Stöð 2 þegar fréttirnar bárust af nýja samningnum. Hann gaf jafnvel í skyn að Alexander myndi eyða næstu 18 mánuðum í stúkunni.

„Ég var líka í viðræðum við Berlin og þeir vissu vel af samningaviðræðunum við Löwen. Dagur vissi líka af þeim. Auðvitað finnst þeim leiðinlegt að missa mig en svona er þetta. Ég talaði við Dag eftir Austurríkisleikinn og hann sagðist hafa verið með gálgahúmor í viðtalinu. Það stæði því ekki til að setja mig í stúkuna næsta eina og hálfa árið,“ sagði Alexander og bætti við að það hefði nánast verið búið að ganga frá þessum samningi áður en hann kom til Svíþjóðar með landsliðinu.

Í dag er lokaleikur íslenska liðsins í riðlakeppninni og í raun má líta á þann leik sem leik í milliriðli. Bæði Ísland og Noregur eru komin áfram og það lið sem vinnur tekur með sér stigin úr leiknum í milliriðilinn.

„Við fengum alvöruleik gegn Austurríki og þetta verður örugglega líka hörkuleikur. Við erum í góðri stöðu og við getum vel lagt Norðmenn. Það væri vissulega mjög gott að fara með fjögur stig í milliriðilinn. Við erum enn að hugsa bara um einn leik í einu,“ sagði Alexander, sem er sáttur við leik liðsins hingað til og sérstaklega varnarleikinn.

„Það er erfitt að eiga við þessa vörn hjá okkur. Það er mikil vinnsla og við erum aðeins þreyttir sem stöndum mest í vörninni. Sverre og Diddi fá reyndar að hvíla í sókninni þannig að þeir geta ekki kvartað yfir þreytu,“ sagði Alexander léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×