Viðskipti innlent

Ráðherra óskar upplýsinga um Vestiu

Steingrímur J. Sigfússon Sagði auðvelt að gera hlutina tortryggilega en ekki mætti ala á tortryggninni.Fréttablaðið/gva
Steingrímur J. Sigfússon Sagði auðvelt að gera hlutina tortryggilega en ekki mætti ala á tortryggninni.Fréttablaðið/gva

Fjármálaráðherra sendi Bankasýslu ríkisins bréf í gærmorgun og óskaði eftir öllum þeim upplýsingum sem unnt væri að veita um aðdraganda að sölu Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestiu til Framtakssjóðs Íslands.

Guðlaugur Þór Þórðarson spurði ráðherrann um málið á Alþingi í gær, meðal annars hvort til stæði að upplýsa um söluverð þeirra fyrir­tækja sem seld voru yfir til Framtakssjóðsins frá Landsbankanum. Það væri grundvallaratriði.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kvaðst ekki kannast við að nokkru hefði verið leynt í málinu. Fram hefði komið í skriflegu svari til þingmannsins að heildarverðið hefði verið um 15,5 milljarðar, Landsbankinn héldi eftir 19 prósenta hlut í Icelandic Group og eignaðist 25 prósent í Framtakssjóðnum. Þá hefði hlutafé Icelandis verið metið á 13,9 milljarða og saman­lagt verðmæti annarra fyrirtækja innan Vestiu á 4,25 milljarða.

Steingrímur nefndi einnig að í viðræðum við fjárfestingarsjóðinn Tríton væri Framtakssjóðurinn í raun ekki samningsaðili, heldur fyrir­tækið Icelandic Group, enda snerust viðræðurnar um sölu á erlendum eignum út úr félaginu.

Lilja Mósesdóttir og Magnús Orri Schram, formaður og varaformaður viðskiptanefndar, voru bæði gagnrýnin á söluferlið, sögðu það ekki yfir vafa hafið og að mögulegir kaupendur væru ekki jafnsettir.

Lilja sagði að nefndin hefði í síðustu viku beðið Landsbankann um eignamat einstakra hluta Vestia þegar þeir voru færðir í Framtakssjóðinn. „Þær upplýsingar fengust ekki," sagði Lilja og bætti við að hún ætlaðist til að Bankasýslan útvegaði nefndinni upplýsingarnar. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×