Handbolti

Norðmenn unnu Austurríkismenn létt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjetil Strand í leiknum í dag.
Kjetil Strand í leiknum í dag. Mynd/AFP

Norðmenn komu sterkir til baka eftir tapið á móti Ungverjum og unnu sex marka sigur á Austurríki, 33-27, í öðrum leiknum í íslenska riðlinum í dag. Norðmenn hafa því fjögur stig eins og Ísland og Ungverjaland en strákarnir okkar eiga leik inni á móti Japan á eftir.

Austurríkismenn byrjuðu frábærlega í leiknum, voru komnir í 3-0 eftir rúmlega þriggja mínútna leik og Norðmenn skoruðu ekki sitt fyrsta mark fyrr en eftir sjö mínútur. Norðmenn voru aftur á móti fljótir að komast yfir eftir að þeir brutu loksins ísinn. Þeir breyttu stöðunni úr 0-3 í 9-5 á níu mínútna kafla og voru með gott forskot eftir það.

Noregur var fimm mörkum yfir í hálfleik, 16-11, og náði sjö marka forskoti, 22-15, eftir aðeins sjö mínútna leik í seinni hálfleiknum. Austurríki náði að minnka muninn í fjögur mörk en komust ekki nær en það.

Håvard Tvedten skoraði tíu mörk fyrir Norðmenn þar af voru sex úr vítum. Hann klikkaði tvisvar á úrslitastundu á móti Ungverjum en byrjaði þennan leik á því að skora fimm af fyrstu sjö mörkum liðsins.

Austurríska liðið mætir því í leikinn á móti Íslandi á morgun með tvö töp í röð á bakinu því liðið tapaði einnig á móti Japan á laugardaginn.

Staðan, úrslit og leikjadagskrá HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×