Viðskipti innlent

Sérstakur: Gögnin frá Lúx ættu að skila sér í febrúar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Sérstakur saksóknari segist eiga von á því að fá gögn úr Banque Havilland bankanum í Lúxemborg í febrúar þegar niðurstaða hæstaréttar í Lúxemborg á að liggja fyrir. Embættið telur gögnin hafa grundvallarþýðingu fyrir rannsókn á málefnum Kaupþings.

Allir þræðir liggja til Lúxemborgar

Í febrúar síðastliðnum framkvæmdi lögreglan í Lúxemborg, að beiðni sérstaks saksóknara á Íslandi, húsleit hjá Banque Havilland bankanum sem starfaði áður undir heiti Kaupþings í Lúxemborg. Bankinn, sem er í eigu Rowland-fjölskyldunnar bresku, og nítján viðskiptavinir hans kærðu afhendingu gagnanna til Íslands og féll úrskurður þess efnis sérstökum saksóknara í vil hinn 30. nóvember. „Sú niðurstaða var kærð til Hæstaréttar og við eigum von á því, eftir því sem við komumst næst, að það ætti að liggja niðurstaða fyrir í því kærumáli í lok febrúar, að öllum líkindum." segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Hvaða þýðingu hafa þessi gögn fyrir rannsókn ykkar á málefnum Kaupþings? „Við teljum að þarna hafi legið töluvert mikið af upplýsingum um það sem í raun og veru gerðist. Þess vegna var farið fram á það að þessi leit yrði framkvæmd. En við höfum ekki séð gögnin ennþá og getum því ekki fullyrt um hvaða upplýsingar þau muni veita fyrir rannsóknirnar," segir Ólafur Þór. Embætti hans hefur að undanförnu verið að bæta við sig starfsfólki. Tólf voru ráðnir í desember síðastliðnum og hefur embættið nú að sögn Ólafs Þórs ráðið sjötíu af þeim áttatíu starfsmönnum sem embættið ætlaði að ráða til að styrkja rannsóknarteymi sín. Embættið hefur nú um áttatíu opin mál til rannsóknar sem snerta alla stóru föllnu bankana þrjá og fleiri fjármálafyrirtæki sem störfuðu hér á landi fyrir hrun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×