Viðskipti innlent

VBS á borð sérstaks saksóknara

Fyrrverandi forstjóri VBS Slitastjórn VBS Fjárfestingarbanka er sögð undrast ýmis viðskipti stjórnenda bankans áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir. Fréttablaðið/GVA
Fyrrverandi forstjóri VBS Slitastjórn VBS Fjárfestingarbanka er sögð undrast ýmis viðskipti stjórnenda bankans áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir. Fréttablaðið/GVA
Slitastjórn VBS Fjárfestingarbanka undirbýr það nú að stefna nokkrum málum tengdum viðskiptum bankans fyrir fall hans í fyrra og er líklegt að einhver þeirra lendi á borði sérstaks saksóknara. Ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um það hvaða mál fara til sérstaks saksóknara en nokkur eru sögð koma til álita, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Hvorki Hróbjartur Jónatansson né Þórey S. Þórðardóttir, sem sæti eiga í slitastjórn VBS, vildu tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í gær. Þórey sagði þó að verið væri að vinna í ýmsum málum. Hún vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Fréttablaðið greindi frá því í desember að verðmæti eignasafns VBS hafi verið fært úr 52 milljörðum króna í tíu og aðeins einn óveðsettur milljarður króna væri til á móti 48 milljarða króna kröfum í þrotabúið.

Þá kom fram að vísbendingar væru um að stjórnendur bankans hefðu lánað til fasteignaverkefna með veði í lóðum og húsum án þess að húsin hefðu nokkru sinni risið. Skuldabréf tengd lánveitingunum hefðu verið sett í eignastýringu VBS og viðskiptavinir bankans í raun tekið alla áhættuna. Fasteignaverkefnin eru flest hver í nágrenni Selfoss, Mosfells­bæjar, á Suðurnesjum og við Akureyri.

Útlán VBS til fasteignaverkefna námu 20 milljörðum króna og jafngildir það 76 prósentum af heildarútlánum.

Samkvæmt athugun endurskoðenda á rekstri bankans fyrir hrun er talið víst að hann hafi verið ógjaldfær í ársbyrjun 2008, tveimur árum áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir í fyrravor.

Eftir því sem næst verður komist telur slitastjórn VBS nokkurn fjölda viðskipta fyrrverandi stjórnenda bankans í besta falli undarlegan. Stjórnin hefur rift fjölda gjörninga, svo sem eignatilfærslum, sem innsiglaðir voru á meðan bankinn var enn starfandi. Verðmæti samninganna nemur 5,1 milljarði króna.

Enn á eftir að rifta fleiri samningum sem taldir eru hafa verið gerðir í þeim tilgangi að snuða þrotabúið og gæti verðmæti þeirra numið í kringum tveimur milljörðum króna til viðbótar.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×