Handbolti

Ungverjar stóðust áhlaup Japana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mate Lekai í leiknum í dag.
Mate Lekai í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP

Ungverjaland vann nokkuð þægilegan sigur á Japönum í riðli Íslands á HM í handbolta í dag þrátt fyrir að þeir síðarnefndu hafi náð að saxa verulega á forskotið á lokakafla leiksins.

Jafnræði var með liðunum í upphafi en í stöðunni 4-4 skoruðu Ungverjar átta mörk í röð og komust í 12-4. Japanir náðu þó að laga stöðuna aðeins en að loknum fyrri hálfleik var hún 13-8.

Ungverjar náðu svo öðrum frábærum spretti í upphafi síðari hálfleiks er þeir breyttu stöðunni úr 14-9 í 20-9.

Japanir gáfust þó ekki upp og náðu að minnka muninn í þrjú mörk þegar sex mínútur voru til leiksloka. Nær komust þeir ekki.

Ungverjaland er með sex stig í B-riðli og er nánast öruggt með sæti í milliriðlakeppninni. Japan er þó úr leik.

Markahæstur hjá Ungverjalandi Gergö Ivancsik með níu mörk og Mate Lekai skoraði sex. Gabor Csaszar skoraði fimm mörk, þar af þrjú síðustu mörk Ungverja í leiknum.

Hjá Japönum var „íþróttaálfurinn" Daisuke Miyazaki markahæstur með fimm mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×