Handbolti

Milliriðlamartröðin hélt áfram

Henry Birgir Gunnarsson í Jönköping skrifar
Vignir Svavarsson stóð vaktina í fjarveru Ingimundar Ingimundarssonar sem var frá vegna meiðsla. Hann skilaði einnig sínu í sókninni og skoraði þrjú mörk.
Vignir Svavarsson stóð vaktina í fjarveru Ingimundar Ingimundarssonar sem var frá vegna meiðsla. Hann skilaði einnig sínu í sókninni og skoraði þrjú mörk. Mynd/Valli

Heims, Evrópu- og ólympíu­meistarar Frakka unnu næsta þægilegan sigur, 34-28, á Íslandi í gær. Þetta var lokaleikur milliriðilsins og strákarnir eiga því aðeins eftir að spila einn leik á HM í Svíþjóð.

Leikurinn skipti í raun engu máli fyrir Ísland því fyrir leik varð ljóst að Ísland myndi hafna í þriðja sæti riðilsins og spila við Króatíu um fimmta sætið á mótinu. Engu að síður höfðu leikmenn íslenska liðsins eflaust sitt hvað að sanna fyrir sjálfum sér gegn liðinu sem hefur staðið í vegi fyrir því að þeir ynnu gull á stórmóti.

Íslenska liðið var án Ingimundar Ingimundarsonar og Ólafs Stefánssonar sem eru báðir meiddir á hné. Ólafur var þó til taks á bekknum en kom ekki við sögu. Strákarnir byrjuðu leikinn ágætlega. Virtust vera með ágætar lausnir við agressívum varnarleik franska liðsins og leiddu framan af.

Frakkarnir voru þó fljótir að hressast. Þeir tóku í kjölfarið öll völd á vellinum og virtust ætla að keyra yfir Íslendinga. Staðan 3-7 eftir tíu mínútur og Guðmundur tók leikhlé. Það skilaði sínu því strákarnir stigu aftur á bensínið og unnu sig hægt og rólega inn í leikinn á ný.

Munurinn var aðeins þrjú mörk í leikhléi, 13-16, og íslenska liðið átti alla möguleika til þess að gera eitthvað í síðari hálfleik.

Frakkarnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur og náðu fljótt sex marka forskoti. Sem fyrr neituðu strákarnir okkar að gefast upp og gerðu allt hvað þeir gátu til þess að komast aftur inn í leikinn. Frakkarnir voru aftur á móti of sterkir. Þeir héldu strákunum alltaf í hæfilegri fjarlægð og unnu öruggan sigur.









Mynd/Valli

Þó svo það sé vissulega frábært að leika um fimmta sætið á stórmóti þá er árangurinn í milliriðlinum gríðarleg vonbrigði. Allir þrír leikirnir töpuðust og það á sannfærandi hátt.

Strákarnir komu í góðri stöðu inn í riðilinn en tapið gegn Þjóðverjum virtist rota liðið. Menn voru ekki tilbúnir í þann leik og ekki heldur í leikinn gegn Spánverjum. Frakkarnir voru svo of sterkir. Þeir virtust ekki þurfa að hafa mikið fyrir því að vinna okkar menn sannfærandi.

Það er vonandi að strákarnir sýni þann anda og neista sem fylgdi liðinu í riðlakeppninni er það tekur á móti Króötum. Það væri gott að enda þetta mót á góðum nótum eftir þennan skelfilega milliriðil.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×