Handbolti

Atvinnumannaferli Einars lokið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Einar Hólmgeirsson.
Einar Hólmgeirsson.
Handknattleiksmaðurinn Einar Hólmgeirsson hefur hugsanlega spilað sinn síðasta handboltaleik. Einar hefur verið ótrúlega óheppinn með meiðsli á síðustu árum og þarf nú að fara í enn eina aðgerðina.

Að þessu sinni á vinstra hnénu. Atvinnumannaferill Einars er þar með á enda og hugsanlega ferillinn.

"Læknirinn segir að þetta líti ekkert sérstaklega vel út. Það er ljóst að ég verð frá í marga mánuði og jafnvel fram að jólum," sagði Einar við Vísi en hann er á leið í aðgerðina fljótlega.

"Atvinnumannadraumurinn er því búinn í bili. Ég verð bara að bíða og sjá hvað setur," sagði Einar sem er að renna út á samningi hjá Ahlen-Hamm í sumar og eðlilega er ekkert annað lið að fara að semja við leikmann sem verður meiddur næstu mánuðina.

Einar flytur væntanlega heim með fjölskyldu sinni í sumar. Hann er menntaður einkaþjálfari og aldrei að vita nema hann láti til sín taka á þeim vettvangi er heim kemur.

Nánar verður rætt við Einar í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×