Viðskipti innlent

Bankarnir hækkuðu launin mest af öllum atvinnugreinum

Hafsteinn Hauksson skrifar
Laun og launatengd gjöld meðalstarfsmanns í stóru viðskiptabönkunum eru um sjöhundruð þúsund krónur á mánuði og jukust meira en í nokkurri annarri atvinnugrein á síðasta ári. Bankasýslan vill taka til í rekstri bankanna.

Rekstrarkostnaður stóru bankanna þriggja jókst verulega á síðasta ári, eða um 15 prósent. Stór hluti þessa stökks skýrist af hækkandi launakostnaði innan bankakerfisins.

Hæstur var launakostnaðurinn hjá Íslandsbanka, en þar greiddi bankinn að meðaltali á áttunda hundrað þúsund króna fyrir hvern starfsmann. Þá hafði kostnaðurinn aukist hjá öllum bönkunum um 10 til 15 prósent frá árinu áður. Samtals nemur aukning launakostnaðar þeirra um 3,2 milljörðum.

Í ársskýrslu Bankasýslu ríkisins, sem fer með hlut hins opinbera í bönkunum, segir að hluta hækkunarinnar megi rekja til hækkunar tryggingagjalds. Þrátt fyrir það er ljóst að launakostnaðurinn jókst ívið meira í bankakerfinu en í öðrum geirum, þar sem hækkunin nam 5 til 10 prósentum á sama tímabili samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Í skýrslu Bankasýslunnar kemur skýrt fram að hár rekstrarkostnaður bankakerfisins kalli á aukna hagræðingu. Þar er ekki aðeins beint sjónum að launakostnaðinum, heldur er einnig bent á að Ísland eigi norðurlandamet í því hversu fáir viðskiptavinir eru um hvert bankaútibú. Auk hagræðingar innan fyrirtækjanna stingur bankasýslan upp á sameiningu fjármálafyrirtækja, en ekkert fjármálafyrirtæki á landinu er sagt ná hagkvæmustu stærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×