Handbolti

Sigurður: Formsatriði nema Ronaldinho mæti

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Íslenska liðið í gær.
Íslenska liðið í gær. AFP
Sigurður Bjarnason segir að Ísland eigi að vinna Brasilíu nokkuð örugglega í kvöld. Hann vill sjá Ísland byrja af krafti og koma sér í þægilega stöðu en vera svo með smá tilraunastarfsemi í seinni hálfleik.

Sigurður er einn af sérfræðingum Vísis um HM í handbolta.

"Fyrir mér á þetta að vera formsatriði. Nema þá að þeir komi með Ronaldinho og Pelé með sér," sagði Sigurður og hló við.

"En að öllu gamni slepptu eigum við að taka þennan leik frekar auðveldlega. Leikmennirnir eiga að njóta þess að spila hann.

´Ég vona að Guðmundur leyfi mörgum að spreyta sig, þetta er leikurinn til þess að hvíla menn og vera með tilraunastarfsemi. Að sjálfsögðu ekki of snemma, við þurfum að byrja vel og draga tennurnar aðeins úr þeim.

Það vill oft verða þannig að þá gefast andstæðingarnir frekar upp. Menn eins og Óli Stef, Alexander og Guðjón ættu að vera hvíldir aðeins ef vel gengur og það er fínt að fá menn eins og Ásgeir, Sigurberg inn.

Ég hef líka trú á því að ef Kári Kristján fær tækifæri muni hann standa sig virkilega vel. Það væri líka gott að fá Hreiðar aðeins í markið.

Ég vil að Aron spili áfram, hann á bara að vera funheitur út keppnina. Við erum með frábært lið og það á að vera hægt að rúlla vel á því.

Brassarnir koma eflaust dýrvitlausir til leiks en við eigum að vinna þetta. Brassar komast væntanlega ekki áfram en við þurfum að vinna þó að það þurfi ekki að vera með 15-20 mörkum.

Það fer ekkert úr leiknum með í milliriðil, ólíkt því sem gæti gerst með Ungverjana," sagði Sigurður sem beið spenntur eftir leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×