Viðskipti innlent

Endurskoðun AGS í dag, ekkert bólar á Norðurlandalánum

Síðdegis í dag mun framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) taka fyrir fjórðu endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og sjóðsins. Tilkynningu um þetta er að finna á heimasíðu AGS.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að endurskoðunin er sú fjórða í röðinni af samtals sjö endurskoðunum sem þarf að klára til að efnahagsáætluninni ljúki endanlega en stefnt er að því að sú síðasta fari fram í ágúst.

Verði endurskoðunin samþykkt mun íslenskum stjórnvöldum standa til boða lánafyrirgreiðsla að jafngildi 19 milljarða kr. eða sem nemur 162 milljónum dollara. Síðasta endurskoðun var samþykkt þann 30. september síðastliðinn.

Óvíst er hvort að lánafyrirgreiðsla Norðurlandanna muni standa íslenskum stjórnvöldum til boða að lokinni fjórðu endurskoðun þar sem enn bólar ekkert á útgreiðslunni sem átti að standa til boða að lokinni síðustu endurskoðun. Norðurlöndin bíða eflaust enn eftir því að Icesave málið verði útkljáð.

Eins og kunnugt er liggur nú nýr Icesave samningur fyrir og mun Alþingi taka hann til umfjöllunar þegar það kemur að nýju saman eftir jólafrí eftir næstu helgi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×