Handbolti

Ótrúlegt korter sá um Japana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íþróttaálfurinn svokallaði var kaffærður í leiknum í kvöld.
Íþróttaálfurinn svokallaði var kaffærður í leiknum í kvöld. Mynd/Valli

Ísland sýndi ótrúleg tilþrif á fyrsta stundarfjórðungnum gegn Japan í kvöld sem gaf tóninn fyrir yfirburðasigur. Lokatölur 36-22.

Leikurinn var gríðarlega hraður og staðan eftir þrjár mínútur var orðin 3-2 fyrir Íslandi. Þá tóku strákarnir sig til og skoruðu tíu mörk í röð. Það dugði til að klára leikinn og sigldi íslenska liðinu sigrinum auðveldlega í höfn.

Alexander Petersson átti ótrúlegan fyrri hálfleik. Hann var gríðarlega duglegur í vörninni, stal mörgum boltum, gaf fullt af stoðsendingum og skoraði mörk.

Reyndar stóðu allir sig vel í kvöld. Allir sem tóku þátt í sóknarleiknum komust á blað en Ólafur Stefánsson fékk kærkomna hvíld og spilaði ekkert vegna hnémeiðslanna.

Björgvin Páll var góður í fyrri hálfleik og Hreiðar Levý alls ekki síðri í síðari hálfleik. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var duglegur að nota gefa öllum tækifæri og þar með dreifðist álagið vel.

Daisuke Miyazaki, eða íþróttaálfurinn eins og hann er kallaður hér á Vísi, átti dapran dag. Hann skoraði tvö mörk úr átta skotum og tapaði fjórum boltum. Japanar þurftu svo fimm tilraunir á vítalínunni til að nýta loksins vítaskot.

Ísland er því enn með fullt hús stiga í B-riðli og trónir þar á toppnum. Næst mætir Ísland Austurríkismönnum annað kvöld og eiga strákarnir þar harma að hefna.

Ísland - Japan 36-22 (22-8)

Mörk Íslands (skot): Guðjón Valur Sigurðsson 9 (11), Þórir Ólafsson 7(7), Alexander Petersson 5 (7), Snorri Steinn Guðjónsson 4/1 (6/1), Vignir Svavarsson 3 (4), Aron Pálmarsson 1 (1), Ingimundur Ingimundarson 1 (1), Sverre Jakobsson 1 (1), Róbert Gunnarsson 1 (1), Sigurbergur Sveinsson 1 (3), Kári Kristjánsson 1 (3), Ásgeir Örn Hallgrímsson 1 (4), Arnór Atlason 1 (4).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 10/1 (18/1, 56%), Hreiðar Levy Guðmundsson 14/2 (28/5, 50%).

Hraðaupphlaupsmörk: 16 (Guðjón Valur 6, Þórir 4, Vignir 2, Ingimundur, Snorri Steinn, Alexander, Sverre)

Fiskuð víti: 1 (Róbert)

Brottvísanir: 14 mínútur.

Smelltu hér til að opna Boltavaktina: Ísland - Japan.

Úrslit, staða og leikjadagskrá HM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×