Viðskipti innlent

Segir lambakjötsbirgðir duga út sumarið

Sauðfjárbændur segja birgðir duga fram að næstu slátrun, sem sé fín nýting.
Sauðfjárbændur segja birgðir duga fram að næstu slátrun, sem sé fín nýting. Mynd/Vilhelm
Það er ekki rétt að skortur sé á lambakjöti hér á landi, segir formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson. Leifur Þórsson, framkvæmdastjóri hjá Ferskum kjötvörum, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að skortur væri á lambakjöti á Íslandi. Hann hefur óskað eftir því við landbúnaðarráðuneytið að fá leyfi til innflutnings á lambalærum.

„Birgðastaðan 1. júlí var 1100 tonn, og síðustu ár hefur salan þessa sumarmánuði verið í kringum 500 tonn á mánuði. Það eru tveir mánuðir, júlí og ágúst, þangað til ný sláturtíð hefst,“ segir Sigurgeir Sindri.

Hann segir að mögulegt sé að minna sé til af ákveðnum bitum en öðrum. „Ég er svo jákvæður fyrir því að við förum inn í nýja sláturtíð með nánast tómar geymslur, mér finnst það bara frábært nýting. Það hafa oft verið sögur um kjötfjöll sem hafi verið sturtað á haugana.“

Um fjörutíu prósent af íslensku lambakjöti eru flutt úr landi. Sigurgeir Sindri segir að þótt sala erlendis gangi vel sé innanlandsmarkaðurinn í forgangi. „Innanlandsmarkaður er okkar besti markaður, hefur alltaf verið og mun alltaf verða. Við bændur verðum mjög óánægðir ef það er kjötlaust á Íslandi. Við erum hérna til að sinna íslenskum neytendum fyrst og fremst.“ Ekki náðist í Leif Þórsson, framkvæmdastjóra Ferskra kjötvara, í gær. - þeb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×