Viðskipti innlent

Um 18% þjóðarinnar fá lífeyristryggingar

Rétt rúmlega 56.000 manns eða um 18% þjóðarinnar fá lífeyristryggingar greiddar í einu eða öðru formi. Heildarkostnaður vegna þeirra í ár nemur um 76 milljörðum kr.

Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur þingmanns Hreyfngarinnar á Alþingi um lífeyristryggingar.

Í svarinu segir að heildargreiðslur vegna lífeyristrygginga frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) námu samtals 53.531 milljónum kr. á árinu 2009. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur vegna ársins 2010 en bráðabirgðatala nemur 51.991 milljónum kr.

Til lífeyristrygginga ríkistryggða kerfisins teljast eftirtaldir bótaflokkar: Ellilífeyrir, örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging, örorkustyrkur og barnalífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Einnig endurhæfingarlífeyrir, heimilisuppbót og allar uppbætur á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) námu á árinu 2009 alls 23.358 milljónum kr. Endanleg tala vegna ársins 2010 liggur ekki fyrir en bráðabirgðatala nemur 24.247 milljónum kr. Samtals fara því 76,2 milljarðar kr. í þessar greiðslur í ár.

Margrét spurði einnig hversu margir lífeyrisþegar fá greiðslur vegna lífeyristrygginga frá ríkinu, sundurliðað milli ríkistryggða kerfisins og almenna kerfisins?

„Í desember 2009 fengu samtals 41.732 einstaklingar greiddan ellilífeyri, örorkulífeyri, örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri frá TR. Bráðabirgðatala fyrir árið 2010 er 41.662 einstaklingar.

Meðalfjöldi allra lífeyrisþega hjá LSR á árinu 2009 var 13.656 manns. Bráðabirgðatala fyrir árið 2010 er 14.372 einstaklingar," segir í svarinu.

Samtals er því um rétt rúmlega 56.000 manns að ræða eða um 18% þjóðarinnar eins og fyrr segir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×