Viðskipti innlent

Lýsing hundsar fyrirmæli Neytendastofu

Breki Logason skrifar
Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing ætlar að innheimta verðbætur á óverðtryggðum lánum, þrátt fyrir úrskurði Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála um að þeim hafi verið það óheimilt. Neytendastofa hefur fá úrræði í höndunum, en getur þó beitt sektum. Breki Logason.

Þann 20.desember staðfesti áfýjunarnefnd neytendamála úrskurð neytendastofu um að Lýsingu hefði verið óheimilt að innheimta verðbætur á óverðtryggðum lánum. Um er að ræða bílasamning sem gerður var við einstakling, þar sem helmingur lánsfjárhæðar var tengdur erlendum myntum en hinn helmingurinn var í íslenskum krónum.

Í úrskurðinum segir meðal annars að stofnunin telji Lýsingu þurfa að bera ábyrgð á því að félagið hafi fyrir mistök ekki greint frá því að á samningnum væri íslenskur hluti lánsins verðtryggður.

Lýsing sendi síðan frá sér tilkynningu vegna málsins í dag.

Þar segir að þar sem hvorki áfýjunarnefndin né neytendastofa hafi tekið afstöðu til þess hvernig haga beri uppgjöri eða hvernig túlka beri þann samning sem fjallað var um, telji Lýsing rétt að reikna hann út á þann hátt sem þeir síðan útlista í tilkynningunni.

Þar kemur síðan fram að sá hluti samningsins sem sé í íslenskum krónum verði óbreyttur og reiknast með verðtryggingu sem miðuð sé við vísitölu neysluverðs og vextir miðist við verðtryggða vexti samkvæmt gjaldskrá Lýsingar á hverjum tíma.

Þórunn Anna Árnadóttir sviðsstjóri neytendaréttarsviðs hjá Neytendastofu segir stofnunina ekki hafa neina heimild til að taka afstöðu til þess hvernig uppgjöri skuli hagað. Það verði að leysa á einkaréttarlegum grunni en stofnunin geti þó beitt sektarheimildum sé ekki farið að ákvörðun stofnunarinnar.

Hún sagði ennfremur að í fljótu bragði virtist Lýsing ætla að innheimta fyrrgreindar verðbætur með sömu röksemdum og var beitt þegar Neytendastofa og áfrýjunarnefndin fjölluðu um málið. Þær röksemdir hafi hinsvegar ekki verið taldar fullnægjandi og því sé undarlegt að menn ætli að beita þeim í þriðja skiptið. Hún segir málið verða skoðað frekar á næstu dögum.

Forsvarsmenn Lýsingar vísuðu í fyrrgreinda tilkynningu þegar fréttastofa leitaði viðbragða vegna málsins í dag, en hana er hægt að nálgast á heimasíðu fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×