Viðskipti innlent

Intrum verður Motus

Motus er nýtt nafn á starfsemi Intrum á Íslandi. Ákvörðun hefur verið tekin um að félagið starfi undir eigin vörumerki á Íslandi og notkun á alþjóðlega vörumerkinu „Intrum Justitia" verði lögð af.

Í tilkynningu segir að ákvörðunin sé tekin til að tryggja sjálfstæði og skilvirkni til framtíðar og geta þannig best mætt þörfum markaðarins á hverjum tíma. Nú eru 15 ár frá stofnun fyrirtækisins, það hefur dafnað vel, er nú orðið fullþroska og tilbúið til þess að standa að fullu á eigin fótum.

Stjórn félagsins og stjórnendur þess telja mikil tækifæri felast í því til framtíðar að hafa fullt vald yfir eigin vörumerkjum, vöruframboði, tæknimálum, markaðsmálum og öðrum stærri ákvörðunum.

Intrum á Íslandi hefur átt frábært samstarf við Intrum Justitia við uppbygginguna á Íslandi og mun því samstarfi verða haldið áfram, en í breyttri mynd þannig að Motus verður umboðsaðili Intrum Justitia í stað þess að vera hlutdeildarfélag þess.

Samhliða breytingunni mun félag í eigu stjórnenda Motus kaupa þriðjungs hlut Intrum Justitia í félaginu.

Framangreind nafnabreyting mun ekki hafa nein áhrif á þá þjónustu sem Motus veitir hér á landi, en allar hugbúnaðarlausnir sem nýttar hafa verið af félaginu og öll önnur þekking sem félagið hefur byggt starfsemi sína á eru eign félagsins.

Það hefur lengi legið í loftinu að sá dagur myndi koma að Intrum á Íslandi yrði annað hvort 100% dótturfélag Intrum Justita eða það myndi þróa eigin vörumerki og starfa þá sem umboðsaðili Intrum Justitia. Stefna Intrum Justitia er skýr, þeir vilja annað hvort eiga félög að fullu eða hafa þau sem samstarfsaðila án eignarhalds. Íslenska félagið hefur alla tíð verið mjög sjálfstætt og farið sínar eigin leiðir á flestum sviðum með góðum árangri og telja stjórn og stjórnendur félagsins tækifæri fólgin í þeirri stefnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×