Viðskipti innlent

Drekaútboð átti að hefjast í dag

Ekkert verður af því að annað olíuleitarútboð Íslendinga á Drekasvæðinu hefjist í dag, eins og búið var að undirbúa í hartnær tvö ár.  Ástæðan er sú, eins og áður hefur komið fram í fréttum, að nauðsynlegar lagabreytingar dagaði uppi á Alþingi á lokadögum þingsins fyrr í sumar.

Íslensk stjórnvöld höfðu snemma árs 2010 tilkynnt formlega að útboðið myndi hefjast 1. ágúst 2011. Starfsmenn Orkustofnunar hófu undirbúning útboðsins miðað við þessa tímasetningu þó mun fyrr, eða haustið 2009, þegar fyrir lá sú niðurstaða fyrsta útboðsins að tvö olíufélög, sem sóttu um leyfi, hættu bæði við.

Vonir voru bundnar við að áhuginn væri nú orðinn meiri. Þannig sóttu átta olíufélög kynningarfund Orkustofnunar í Stafangri í júníbyrjun, þeirra á meðal Exxon Mobil, Conoco Philips, Statoil og Total. Þegar ljóst varð skömmu síðar að útboðið myndi frestast kvaðst orkumálastjóri sleginn enda taldi hann að lag væri til að bjóða út olíuleit.

Málinu hefur verið lýst sem klúðri Alþingis en lagafrumvörpin höfðu áður verið afgreidd úr viðkomandi þingnefndum án ágreinings. Stjórnarandstöðuþingmaður sagði þetta hafa gerst vegna ömurlegrar verkstjórnar á störfum ríkisstjórnar og Alþingis.

Nú er vonast til að unnt verði að hefja útboðið í október í haust og að tilboð verði opnuð í apríl 2012. Það er þó háð því að Alþingi nái að samþykkja lagabreytingarnar á haustþingi í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×