Viðskipti innlent

Forsenda AGS að áætlun um gjaldeyrishöftin liggi fyrir

Ein forsenda þess að fimmta endurskoðunin á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og Íslands nái fram að ganga er að ríkisstjórnin samþykki nýja áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta fyrir febrúarlok.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að vinna við slíka áætlun sé nú á lokasprettinum og má gera ráð fyrir að hún verði með talsvert öðru sniði en áætlunin sem birt var sumarið 2009.

Einnig hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að ljúka endurfjármögnun sparisjóða fyrir febrúarlok, og mánuði seinna hyggjast þau birta tveggja ára áætlun um endurskipulagningu sparisjóðakerfisins með það fyrir augum að tryggja rekstrarhæfi þess til lengri tíma litið.

Loks áforma stjórnvöld að færa Íbúðalánasjóð að fullu undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og á að leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi fyrir lok marsmánaðar. Raunar hafði einnig verið gert ráð fyrir því að endurfjármögnun sjóðsins yrði lokið fyrir áramót, en dregist hefur að ganga frá henni og væri þarft verk að binda endahnútinn þar á.

AGS telur að nú hilli undir bata í íslensku efnahagslífi. Áætla þeir að hagkerfið vaxi að raungildi í ár, í fyrsta sinn frá því kreppan skall á síðla árs 2008. Verðbólguhorfur eru hagfelldar að mati sjóðsins og opinberar skuldir, sem og erlendar skuldir þjóðarbúsins, muni lækka jafnt og þétt þegar fram í sækir. Þó hefur sjóðurinn áhyggjur af miklu atvinnuleysi og telur það eitt höfuðverkefni Íslendinga að draga úr atvinnuleysi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×