Viðskipti innlent

Viðsnúningur um 11 milljarða til hins betra hjá Icelandair

Hagnaður Icelandair Group eftir skatta var 1,4 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi í fyrra samanborið við 9,6 milljarða króna tap á sama tímabili árið áður. Þetta er viðsnúningur upp á 11 milljarða til hins betra hjá félaginu.

Hagnaður eftir skatta fyrir árið í heild var 4,6 milljarðar króna en tap eftir skatta nam 10,7 milljörðum króna árið 2009.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að heildarvelta var 88,0 milljarðar króna allt árið í fyrra og jókst um 10% á milli ára.

Söluhagnaður eigna í tengslum við endurskipulagningu efnahagsreiknings félagsins nam 4.2 milljörðum króna. Fjármagnskostnaður var 0,6 milljarðar króna samanborið við 2,9 milljarð króna árið áður.

Handbært fé og skammtímaverðbréf í lok ársins 2010 var 13 milljarðar króna, en var 1,9 milljarðar árið áður.

Heildareignir námu 84,2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 33,7 % í lok árs 2010, en voru 89,1 milljarðar og 16,4% í lok árs 2009.

„Eitt viðburðarríkasta ár í sögu félagsins er að baki. Í fyrsta lagi skilaði félagið besta rekstrarárangri frá upphafi og nam EBITDA 12,6 milljörðum króna og var 4,4 milljörðum króna hærri en árið 2009. Niðurstaðan er mun betri en upphaflegar áætlanir okkar gerðu ráð fyrir og einnig betri en síðasta afkomuspá okkar gaf til kynna en hún hljóðaði uppá EBITDA 11,5 milljarða króna. Bætt afkoma félagsins skýrist fyrst og fremst af mikilli aukningu í farþegatekjum hjá Icelandair," segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Farþegatekjur jukust vegna bættrar sætanýtingar og góðrar tekjustýringar í leiðakerfinu. Farþegum á Norður-Atlantshafsmarkaðnum fjölgaði mikið og námu þeir 38% af heildarfarþegafjölda félagsins samanborið við 28% árið 2009. Til viðbótar er ánægjulegt að greina frá því að flest dótturfélög okkar skiluðu góðri afkomu á árinu.

Í annan stað sýndi félagið og starfsfólkið okkar fádæma sveigjanleika og áræðni í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli í apríl síðastliðnum. Á sama tíma og nær allar flugsamgöngur í Evrópu lömuðust í um vikutíma náðum við að halda okkar flugáætlun uppi með því að flytja tengibankann til Glasgow, ásamt því að fljúga til Akureyrar í stað Keflavíkur. Þrátt fyrir að eldgosið hafi verið félaginu kostnaðarsamt til skemmri tíma þá er það mín trú að landkynningin sem gosið olli muni til lengri tíma skila sér í fjölgun ferðamanna til landsins.

Í þriðja lagi lauk fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, en mikil vinna fór í það ferli á árinu og er ég mjög ánægður með árangurinn. Endurskipulagningin skiptist í þrjá meginþætti: útgáfu nýs hlutafjár, breytingu skulda stærstu lánveitenda í hlutafé og lækkun vaxtaberandi skulda vegna sölu eigna. Í kjölfarið hækkar eiginfjárhlutfallið úr 16,4% í lok árs 2009 í 33,7% í lok árs 2010."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×