Viðskipti innlent

Exeter: Styrmir segist ekki hafa haft ítök í BYR

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ákæruvaldið. Björn Þorvaldsson saksóknari vakti máls á því að BYR hefði tekið alla ábyrgð á viðskiptunum. Mynd/ GVA.
Ákæruvaldið. Björn Þorvaldsson saksóknari vakti máls á því að BYR hefði tekið alla ábyrgð á viðskiptunum. Mynd/ GVA.
Styrmir Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, segist ekki hafa verið með nein ítök í BYR sparisjóði sem gætu hafa haft áhrif á viðskipti með stofnfjárbréf í BYR sparisjóði. Þetta kom fram í máli Styrmis þegar hann gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Exetermálinu í morgun. Viðskiptin fóru fram með vilja Margeirs Péturssonar, stjórnarformanns MP, fyrir milligöngu Styrmis og samskipta hans við stjórnendur BYRS.

Allir sakborningarnir í málinu gáfu skýrslu fyrir dómi í morgun. Styrmir er einn þeirra. Í málinu er hann, ásamt stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra BYRS, grunaðir um umboðssvik þegar BYR veitti samtals um 1100 milljóna króna lán til Exeter og Tæknisetursins Arkea, en fyrrnefnda félagið var reist á grunni hins síðarnefnda. Lánið var veitt til kaupa á bréfum sem Birgir Ómar Haraldsson, sem var varastjórnarmaður í BYR, og Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður BYRS, seldu.

Björn Þorvaldsson saksóknari vakti máls á því við aðalmeðferðina í morgun að í viðskiptunum við Tæknisetrið Arkea hafi BYR sparisjóður borið alla ábyrgðina. MP banki, sem var nátengdur Arkea, hafi ekki borið neina ábyrgð á viðskiptunum.

Þrátt fyrir þetta neitar Styrmir Bragason að hann, eða MP banki, hafi haft einhver ítök í BYR. Máli sínu til stuðnings benti hann á að BYR hefði verið miklu stærri fjármálastofnun en MP banki á þessum tíma. BYR hefði verið með 50 milljarða eigið fé en MP um 5 milljarða. Það væri því erfitt að ímynda sér að MP banki gæti haft einhver ítök i BYR.

Exetermálið er fyrsta mál sérstaks saksóknara sem ákært var í. Um það bil ár er liðið frá því að ákært var í málinu.


Tengdar fréttir

Exeter: Stjórnarformaður vísar ábyrgð á forstjóra

Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs vísar frá sér allri ábyrgð á lánum í Exetermálinu svokallaða. Hann segir að þáverandi forstjóri Byrs, Ragnar Z. Guðjónsson hafi borið ábyrgð á lánamálum og haft heimild til að veita lán upp að allt að 1,5 milljarði króna. Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og er dómurinn fjölskipaður.

Exeter: Vísa ábyrgð hvor á annan

Skýrslutökum yfir tveimur af sakborningum í Exetermálinu svokallaða er lokið. Aðalmeðerð málsins hófst formlega í Héraðsdómi Reykjavíkur hófst í morgun. Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, var fyrstur til að bera vitni í málinu. Næstur bar Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóri vitni. Nú rétt eftir klukkan hálf tólf hófst svo skýrslutaka af Styrmi Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP, banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×