Viðskipti innlent

Fór langt fram úr heimildum

Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, sat beggja vegna borðs þegar Lífeyrissjóður Kópavogs lánaði Kópavogsbæ háar fjárhæðir í hruninu.
Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, sat beggja vegna borðs þegar Lífeyrissjóður Kópavogs lánaði Kópavogsbæ háar fjárhæðir í hruninu.

Rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á meintum brotum stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs er lokið. Lífeyrissjóðurinn lánaði bæjaryfirvöldum í Kópavogi 600 milljónir króna í kjölfar bankahrunsins síðla hausts 2008 og námu lánin allt að fimmtungi eiginfjár sjóðsins. Hámark er tíu prósent.

Fjármálaeftirlitið, FME, taldi um mitt ár 2009 lánveitingar lífeyrissjóðsins ekki í samræmi við lög, stjórnina ekki hafa sinnt ítrekuðum kröfum um úrbætur og gefið rangar upplýsingar um skuldir bæjarins gagnvart sjóðnum. Í kjölfarið var þeim fjórum bæjarfulltrúum í Kópavogi, sem sæti áttu í stjórn lífeyrissjóðsins, vikið frá. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, var formaður stjórnar lífeyrissjóðsins. FME kærði stjórn lífeyrissjóðsins til efnahagsbrotadeildar í júní 2009.

Í yfirlýsingu sem stjórnin sendi frá sér um svipað leyti segir að í kjölfar bankahrunsins hafi stjórn lífeyrissjóðsins talið það þjóna hagsmunum sjóðsfélaga að ávaxta laust fé um tíma hjá Kópavogsbæ þótt það hafi ekki verið í fullu samræmi við heimildir.

Eftir því sem næst verður komist fer málið á borð saksóknara efnahagsbrota sem ákveður næstu skref.

- jab












Fleiri fréttir

Sjá meira


×