Handbolti

Sverre: Við eigum helling inni

Henry Birgir Gunnarsson í Norrköping skrifar
Sverre og félagar fagna í dag. Mynd/Valli
Sverre og félagar fagna í dag. Mynd/Valli

„Ég er bara nokkuð sáttur við hvernig vörnin var í dag. Það eru ákveðin atriði sem við getum gert betur en svona heilt yfir var vörnin samt mjög góð," sagði varnartröllið Sverre Andreas Jakobsson við Vísi eftir leikinn gegn Ungverja í dag.

„Við byrjuðum kannski aðeins of agressívir og vorum líklega of mótiveraðir. Við töluðum um það og ég sagði við strákana að ég vildi fá þá aftur. Byrja þéttar og fara svo framar á þá. Þegar við gerðum það kom meira öryggi í varnarleikinn og mér fannst við vera með þá í vasanum í fyrri hálfleik."

Íslenska liðið var allan tímann sterkari aðilinn en gekk lengi vel illa að hrista Ungverjana almennilega af sér.

„Það var algjör óþarfi að hleypa þeim svona inn í leikinn og það munaði aðeins tveimur mörkum um tíma í seinni hálfleik. Þá fór maður aðeins að skjálfa en ég trúði samt aldrei að við gætum tapað. Við vorum með réttu uppskriftina til sigurs í dag," sagði Sverre kátur.

„Við vorum bara með hugann við eitt og það var að vinna þennan leik. Að vinna sex marka sigur á Ungverjum er svo sem allt í lagi í fyrsta leik. Þetta er talið eitt af betri liðum riðilsins. Ég hefði tekið sex marka sigri fyrir leik. Við eigum síðan helling inni og það er frábært. Við eigum inni á öllum sviðum. Það er gott að vita það. Við erum ekki að toppa núna og munum styrkjast með hverjum leik," sagði Sverre sem viðurkennir að það sé alltaf léttir að vinna fyrsta leik.

„Þetta er langt mót og þar skiptir máli að halda stöðugleika. Ef við verðum svona áfram þá hef ég ekk áhyggjur af þessu. Við viljum samt bæta okkur og ætlum að bæta okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×