Handbolti

Strákarnir æfðu í myrkri

Henry Birgir Gunnarsson í Norrköping skrifar
Svona var ástandið í upphafi æfingar. Mynd/Valli
Svona var ástandið í upphafi æfingar. Mynd/Valli

Íslenska landsliðið í handbolta er núna á sinni síðustu æfingu fyrir opnunarleik sinn á HM. Æfingin fer fram í Himmestalundshallen í Norrköping en þar mun íslenska liðið spila fyrstu tvo leiki sína í keppninni.

Norrköping er í um 40 mínútna fjarlægð frá Linköping og strákarnir þurfa því að eyða talsverðum tíma í rútum þar sem þeir búa í Linköping meðan á riðlakeppninni stendur. Fyrstu tveir leikir mótsins fara fram í Norrköping og síðustu þrír í Linköping.

Æfingin í dag byrjaði ekki vel því um leið og strákarnir ætluðu að hefja upphitun fóru ljósin af höllinni. Ef ekki hefði verið kveikt á auglýsingaskiltum hefði verið almyrkvi innan dyra.

Ólafur teygði hraustlega á fyrir æfingu meðan strákarnir spiluðu fótbolta.

Strákarnir hituðu þó upp í myrkrinu og eftir um tíu mínútur kviknaði aftur á ljósunum.

Þá tók við hinn klassíski fótbolti sem liðið byrjar alltaf á áður en hugsað er um handboltann.

Sem fyrr er mikið kapp í mönnum í boltanum. Eldri sakna Ólafs Stefánssonar í sitt lið en hann hitaði upp einn síns liðs á meðan hinir spiluðu fótbolta.

Vísir mun spjalla við strákana eftir æfingu og má nálgast viðtöl við leikmenn hér síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×