Handbolti

Alfreð: Ég var mjög ánægður með Aron

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Alfreð Gíslason var sáttur með sína menn í Kiel sem komu liðinu í bikaúrslitaleikinn eftir 28-23 sigur á Frisch Auf Göppingen í undanúrslitaleiknum í gær. Kiel mætir Flensburg-Handewitt í úrslitaleiknum klukkan 12.00 í dag og er leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 í dag. Útsendingin hefst klukkan 11.40.

„Ég er mjög ánægður með að við séum komnir í úrslitaleikinn því þetta var ekki auðveldur leikur fyrir okkur þrátt fyrir að við höfum unnið þá tvisvar stórt í deildinni," sagði Alfreð í viðtali á heimasíðu Kiel.

„Það sást í dag af hverju við höfum verið í vandræðum að undanförnu. Leikmennirnir eru búnir að vera að spila í marga mánuði og þeir eru orðnir flatir. Leikmennirnir eru búnir að vera lengi meiddir eru ekki heldur búnir að komast í sitt form," sagði Alfreð.

„Ég er mjög stoltur af mínu liði. 3:2:1-vörnin virkaði mjög vel og það þótt að Göppingen-liðið hafi verið búið að undirbúa sig fyrir hana. Við vorum oft að stela boltanum eða verja skot í vörninni en misstum boltann síðan strax aftur sem skilaði sér í auðveldum mörkum hjá þeim," sagði Alfreð sem var mjög ánægður með landa sinn Aron Pálmarsson sem átti frábæra innkomu í seinni hálfleiknum og skoraði þá 3 mörk á stuttum tíma þegar Kiel gerði út um leikinn.

„Ég var mjög ánægður með Aron Pálmarsson, Thierry Omeyer átti líka frábæran dag og þá var Christian Zeitz mjög góður í fyrri hálfleik. Við lékum miklu betur en í síðasta leik," sagði Alfreð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×