Handbolti

HM 2011: Fimm lið komin áfram - ótrúlegur sigur Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Silvia Pinheiro, til hægri, og Samira Rocha, fagna sigrinum glæsilega á Frökkum í gær.
Silvia Pinheiro, til hægri, og Samira Rocha, fagna sigrinum glæsilega á Frökkum í gær. Nordic Photos / AFP
Heimsmeistarar Rússa, gestgjafar Brasilíu, Rúmenía, Danmörk og Svíþjóð tryggðu sér í gær öll sæti í 16-liða úrslitum á heimsmeistarmótinu í handbolta. Rússar unnu 37 marka sigur á andstæðingum sínum í gær.

Spilað var í öllum riðlunum fjórum í gær en í dag verður frí í C- og D-riðlum. Ísland verður í eldlínunni gegn Þýskalandi klukkan 21.30 í kvöld og verður Ísland að fá stig úr leiknum til að eiga möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslitin.

Brasilía sýndi að liðið ætlar sér stóra hluti á heimavelli með því að vinna góðan sigur á sterku liði Frakklands í gær, 26-22, í C-riðli. Viðsnúningur Brassanna var ótrúlegur því þeir voru sjö mörkum undir í hálfleik, 17-10.

Seinni hálfleikur var með ólíkindum hjá Brasilíu sem skoraði sextán mörk gegn aðeins fimm frá Frökkum - sem skoruðu þó fyrsta mark seinni hálfleiksins og komust þá átta mörkum yfir. Brasilía setti í fluggírinn, jafnaði þegar ellefu mínútur voru eftir og skoruðu sjö af átta síðustu mörkum leiksins.

Markvörðurinn Chana Masson átti ótrúlega innkomu í leikinn og varði alls tíu af þeim fimmtán skotum sem hún fékk á sig. Hinn markvörður Brasilíu, Barbara Arenhart, varði aðeins þrjú af 20 skotum.

Í sama riðli náði Rúmenía að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum þrátt fyrir að hafa misst niður sex marka forystu gegn Japan í jafntefli, 28-28. Japan var fyrirfram talið eitt lakasta lið mótsins en náði frábæru stigi gegn bronsliði EM í Danmörku í fyrra.

Danir, Svíar (í D-riðli) og Rússar (í B-riðli) eru öll með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina. Danir unnu mikilvægan sigur á Króötum í gær og þá var líklegasta ójafnasta viðureign mótsins þegar að heimsmeistarar Rússa slátruðu Áströlum, 45-8.

Sem fyrr er spennan mest í A-riðli - íslenska riðlinum. Þar eru fjögur lið efst og jöfn með fjögur stig, Ísland er með tvö og Kína ekkert. Kínverjar sýndu hins vegar styrk sinn í gær með því að tapa fyrir Þýskalandi í gær með minnsta mun, 23-22, en Þjóðverjar unnu Norðmenn nú um helgina.

Hér má sjá öll úrslit leikjanna og stöðuna í riðlunum fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×