Viðskipti innlent

Áhöld hvort lífeyrissjóðir hafi náð nægri ávöxtun

Hrein eign lífeyrissjóðanna jókst um tæplega 6% að raungildi í fyrra. Hins vegar má ætla að ríflega þriðjungur þeirrar aukningar sé tilkominn vegna innflæðis í sjóðina og því áhöld um hvort raunávöxtun eigna hluta þeirra hafi náð 3,5% tryggingafræðilega viðmiðinu sem notað er við mat á framtíðar eignum og skuldbindingum þeirra.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka en samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans var hrein eign íslenska lífeyrissjóðakerfisins ríflega 1.920 milljarðar kr. um síðustu áramót. Hafði eignin aukist í krónum talið um 145 milljarða kr. frá upphafi ársins.

Sé miðað við þróun vísitölu neysluverðs varð 5,6% raunaukning á hreinni eign lífeyrissjóðanna á síðasta ári. Þar verður hins vegar að hafa í huga að innflæði í sjóðina vegna iðgjaldagreiðslna er talsvert meira en útflæði vegna greiðslu lífeyris og úttektar séreignarsparnaðar.

Sem dæmi má nefna að árið 2009 var nettóinnflæði í sjóðina 31 milljarðar kr. Sé gert ráð fyrir að nettóinflæðið hafi verið á svipuðum slóðum í fyrra má gróflega áætla að raunávöxtun eigna þeirra hafi numið u.þ.b. 4% á síðasta ári.

„Þar sem ætla má að árangur sjóðanna hafi verið mismunandi á árinu hlýtur að teljast nokkuð líklegt að einhver hluti þeirra hafi ekki náð 3,5% ávöxtun á eignir sínar og gæti því þurft að skerða lífeyrisréttindi á komandi misserum," segir í Morgunkorninu.

Kaup lífeyrissjóðanna á íbúðabréfum í hinum svokölluðu Avens-viðskiptum í fyrra hafa breytt talsvert eignasamsetningu þeirra. Í þeim viðskiptum keyptu sjóðirnir bréf af Seðlabanka Lúxemborgar og greiddu fyrir með gjaldeyri sem þeir seldu í raun á afar hagstæðu verði.

Avens-viðskiptin eiga stóran þátt í því að íbúðabréf í eigu lífeyrissjóða jukust um ríflega 145 milljarða kr. á síðasta ári. Alls áttu sjóðirnir íbúðabréf fyrir tæpa 511 milljarða kr. um áramótin, og nam það tæpum 27% af hreinni eign þeirra.

Á sama tíma minnkuðu erlendar eignir sjóðanna um 57 milljarða kr. og voru 473 milljarðar kr. í árslok, sem samsvarar tæpum fjórðungi af hreinni eign þeirra. Hér verður raunar að hafa í huga að styrking krónu á tímabilinu var töluverð, en reiknað á föstu gengi voru erlendar eignir sjóðanna nánast óbreyttar frá upphafi árs til loka þess.

„Er athyglisvert að eign lífeyrissjóðanna í einum tilteknum innlendum eignaflokki skuli nú vera meiri en samanlagðar erlendar eignir þeirra. Má ætla að þetta muni að öðru óbreyttu leiða til þess að sjóðirnir muni þegar frá líður kjósa að auka hlutdeild annarra innlendra skuldabréfa sem og erlendra eigna í söfnum sínum," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×