Viðskipti innlent

Stöðugleiki hefur skilað markaðsforskoti

„Hvernig er hægt að ætlast til þess að gerðir séu kjarasamningar í sjávarútvegi þegar allar rekstrarforsendur eru óljósar, hvort heldur eru tekjur eða gjöld," sagði Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík, m.a. í erindi sem hann flutti á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins í dag, en til fundarins var boðað undir yfirskriftinni Atvinnuleiðin. Húsfyllir var í aðalráðstefnusal Grand Hótel.

Fjallað er um málið á vegsíðu LÍÚ. Þar segir að í erindi sínu varð Pétri tíðrætt um mikilvægi stöðugleika og sagði hann hafa skilað Íslendingum forskoti í harðri samkeppni fyrir sjávarafurðir á alþjóðlegum mörkuðum. Hann rakti í ræðu sinni að með stöðugu rekstrarumhverfi gætu stjórnendur lagt orku sína, tíma og fjármuni í áframhaldandi uppbyggingu, fjárfestingar og markaðsstarf með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

Hann harmaði neikvæða umræðu um sjávarútveg og þá sem í honum starfa og beindi orðum sínum m.a. að núverandi stórnvöldum, sem hann sagði fylgja uppskrift að óstöðugleika. Stefna og markmið væri óljós og einkenndist af skammtímaákvörðunum. Umræðan tæki mið af því og væri ómálefnaleg og meiðandi. Viðvarandi stefnuleysi og óvissa gerði það að verkum að orka stjórnenda færi í allt annað en að efla reksturinn.

Pétur sagði umræðuna um sjávarútveg í grunninn snúast um það hvort önnur kerfi en núverandi kvótakerfi hefði væru betur til þess fallin að skapa stöðugleika. Hann sagði nær öll stærstu útgerðarfyrirtækin hafa starfað í áratugi, jafnt fyrir daga kvótakerfisins sem eftir. „Við höfum prófað hvoru tveggja. Látum söguna dæma," sagði Pétur í lok erindis síns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×