Viðskipti innlent

Þriðjungur fyrirtækja er í viðvarandi mínus

Már Guðmundsson
Már Guðmundsson
Tryggvi Pálsson
Óli Kristján Ármannsson

skrifar

Töluverð óvissa ríkir um gæði eignasafna bankanna og þar með um raunverulegt eiginfjárhlutfall þeirra. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir þó flest benda til þess að þeir standi undir kröfum Fjármálaeftirlitsins um eigið fé. Seðlabankinn kynnti í gær skýrsluna Fjármálastöðugleika 2011. Seðlabankastjóri og Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans, kynntu skýrsluna.

„Vanskil mælast mikil en erfitt er þó að túlka mæld vanskilahlutföll, þar sem ekki er ljóst að hve miklu leyti þau endurspegla skuldavanda sem endar í þroti, tafir á endurskipulagningu skulda eða ákvörðun sumra skuldara um að setja skuldir í vanskil vegna deilna um lagalegan grundvöll lánanna,“ segir Már og kveður enn mikið verk óunnið varðandi endurskipulagningu skulda fyrirtækja og að nokkru leyti heimila. „Það viðheldur óvissu um gæði eigna bankanna og hamlar fjárfestingu og hagvexti, sem hefur síðan aftur neikvæð áhrif á eignasafn bankanna. Eitt mikilvægasta verkefni næstu mánaða er framvinda þessarar endurskipulagningar.“

Seðlabankinn bendir einnig á í skýrslu sinni að Íbúðalánasjóður komi til með að þurfa aukinn ríkisstuðning, eigi hann að ná markmiðum um eiginfjárhlutfall. Bent er á að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hafi samþykkt framlag til sjóðsins gegn því að fyrir septemberlok næstkomandi lægi fyrir áætlun um endurskipulagningu sjóðsins. „Í ljósi þeirra miklu umsvifa sem Íbúðalánasjóður hefur og margvíslegrar áhættu sem tengist þeim er margt sem mælir með því að starfsemi Íbúðalánasjóðs eigi að falla undir lög um fjármálafyrirtæki, þótt tilskilið lágmark eigin fjár gæti verið annað en hjá öðrum fjármálafyrirtækjum,“ segir í skýrslu bankans. Með því yrði fjárhagslegt eftirlit með sjóðnum á sama grunni og eftirlit með bönkum og sparisjóðum. „Slíkt myndi auka aðhald með starfsemi sjóðsins.“

Í skýrslu bankans kemur fram að frá hruni hafi vanskil fyrirtækja aukist verulega. Nú séu tæplega 6.500 fyrirtæki á vanskilaskrá og hafi ekki verið fleiri frá því í mars 2009.

Fjárhæð fyrirtækjalána í vanskilum í lok mars síðastliðins námu um 34 prósentum af lánum til þeirra, en um helmingur lána í vanskilum er sagður í endurskipulagningarferli. Að því loknu gætu þau færst í flokk lána í skilum. „Því ríkir veruleg óvissa um virði að minnsta kosti fjórðungs útlána til fyrirtækja,“ segir í skýrslu Seðlabankans.

Um þriðjungur fyrirtækja er sagður hafa haft viðvarandi neikvætt eigið fé, en almennt virðist fyrirtæki hafa brugðist við ytri aðstæðum. „Rekstrarafgangur fyrirtækja með jákvætt eigið fé hefur aldrei verið meiri frá árinu 1997.“

Sömuleiðis kemur fram að vanskil heimilanna hafi stóraukist frá hruni og nemi nú um ellefu prósentum af heildarútlánum stærstu viðskiptabankanna þriggja til heimila. Þó séu teikn á lofti um að fjárhagsstaða heimila fari batnandi. Kaupmáttur sé nú svipaður og hann var árið 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×