Viðskipti innlent

Íslandsbanki samdi við Seðlabankann um gjaldeyrissölu

Það er Íslandsbanki sem á stærstan hluta að þeirri aukningu á gjaldeyrisforðanum sem Seðlabankinn greindi frá í gær. Íslandsbanki mun selja Seðlabankanum gjaldeyri fyrir 48 milljarða kr. á næstu fimm árum.

Eins og kunnugt er af frétt um málið mun Seðlabankinn auka gjaldeyrisforðann um 72,5 milljarða kr. með samningum um gjaldeyriskaup af fjármálafyrirtækjum á næstu árum. Megnið af þeim viðskiptum eru við Íslandsbanka.

Í tilkynningu segir að Íslandsbanki hafi gert gjaldmiðlaskiptasamning við Seðlabanka Íslands sem miðar að því að leiðrétta gjaldeyrismisvægi vegna þeirra eigna í erlendum gjaldmiðlum í bókum Íslandsbanka sem skila tekjum í erlendri mynt.

Samningurinn felur það í sér að á næstu fimm árum mun Íslandsbanki greiða Seðlabanka Íslands jafnvirði 48 milljarða íslenskra króna í erlendri mynt. Seðlabanki Íslands mun á sama tíma greiða Íslandsbanka sömu fjárhæð í íslenskum krónum.

Íslandsbanki hefur frá stofnun stefnt að því að lágmarka misvægi eigna og skulda í erlendri mynt. Með þeim samningi sem nú hefur verið undirritaður er stigið mikilvægt skref í þá átt og uppfyllir bankinn eftir sem áður allar reglur Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð.




Tengdar fréttir

Gjaldeyrisforðinn aukinn um 72,5 milljarða

Seðlabankinn hefur átt í viðamiklum kaupum á gjaldeyri undir lok síðasta árs. Samtals munu þessi kaup styrkja gjaldeyrisforða bankans um 72,5 milljarða kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×