Handbolti

Eigum enn möguleika á að fara í léttasta riðilinn í forkeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Svo gæti farið að Ísland og Króatía verði saman í „létta“ riðlinum í undankeppni ÓL 2012.
Svo gæti farið að Ísland og Króatía verði saman í „létta“ riðlinum í undankeppni ÓL 2012. Mynd/Valli
Þó svo að Ísland hafi ekki náð fimmta sætinu á HM í handbolta á liðið enn möguleika á að komast í léttasta riðilinn í undankeppni Ólympíuleikanna í Lundúnum árið 2012.

Ísland varð í sjötta sæti á HM í Svíþjóð og því í hópi liðanna sem urðu í 2.-7. sæti og tryggðu sér þar með sæti í undankeppni ÓL 2012.

Vísir greindi frá því á sínum tíma að liðin sem verða í 4. og 5. sæti á HM fara í auðveldasta riðilinn af þeim þremur sem keppa í áðurnefndri undankeppni.

Þau lið fara í eina riðilinn sem inniheldur tvær Evrópuþjóðir. Í hinum tveimur riðlunum verða þrjár Evrópuþjóðir.

Þar sem tvö lið komast áfram úr hverjum riðli og í ljósi gríðarlegra yfirburða Evrópuþjóða í handbolta má gera ráð fyrir því að umræddur riðill verði sá langléttasti í undankeppninni.

Lestu hér um skipulagið á niðurröðun liða í riðlana.

En þar sem Ísland varð í sjötta sæti ætti liðið samkvæmt öllu að fara í riðil sem verður með tveimur öðrum Evrópuþjóðum ásamt einu liði utan Evrópu.

Það þarf þó ekki endilega að vera að svo fari.

Eitt Evrópulið til viðbótar við það sem verður heimsmeistari á HM í Svíþjóð í dag mun tryggja sér beinan þátttökurétt á Ólympíuleikunum með sigri á Evrópumeistaramótinu í Serbíu á næsta ári*.

Ef það lið verður eitt af þeim fjórum liðum sem verða í næstu sætum fyrir ofan Ísland á HM í Svíþjóð mun íslenska liðið „færast upp" um eitt sæti í niðurröðinni og þar með fara í léttasta riðilinn, ásamt liði Króatíu.

Það er einmitt það sem gerðist í aðdraganda Ólympíuleikanna í Peking árið 2008.

Þá hlutu Rússar sömu hlutskipti og Ísland þegar að þeir urðu í 6. sæti á HM í Þýskalandi árið 2007.

Danir fengu brons í þeirri keppni en urðu svo Evrópumeistarar ári síðar. Þar með færðust Rússar upp í fimmta sætið og fór í léttasta riðilinn.

Íslendingar græddu einnig á Evrópumeistaratitli Dana. Þar sem Ísland varð í áttunda sæti á HM átti liðið í raun ekki að fá þátttökurétt í undankeppni leikanna í Peking. En þökk sé því að Danir urðu Evrópumeistarar færðist Ísland upp um eitt sæti, í það sjöunda, og fékk sæti í undankeppninni.

Ísland lenti þó í afar erfiðum riðli og keppti við Pólland, Svíþjóð og Argentínu. Þeir kláruðu þó verkefnið og unnu svo til silfurverðlauna á leikunum sjálfum.

Þess skal þó getið að verði Ísland Evrópumeistari á næsta ári þarf liðið að sjálfsögðu ekki að taka þátt í undankeppni Ólympíuleikanna.

* Ef það lið sem verður heimsmeistari í dag verður einnig Evrópumeistari á næsta ári mun liðið sem verður á öðru sæti á EM 2012 fá beinan þátttökurétt á Ólympíuleikunum. Ef það lið er eitt af þeim liðum sem skipa sæti 2-5 á HM í Svíþjóð mun Ísland einnig „færast upp" um eitt sæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×