Viðskipti innlent

Fimmta endurskoðun í apríl

Hress með stöðuna. Rozwadowski og Kozack telja að Íslandi miði vel áfram.
Fréttablaðið/pjetur
Hress með stöðuna. Rozwadowski og Kozack telja að Íslandi miði vel áfram. Fréttablaðið/pjetur

Stefnt er að því að fimmta endurskoðun samstarfs­áætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fari fram í apríl. Þetta kom fram á blaðamannafundi með Julie Kozack, formanni sendinefndar sjóðsins gagnvart Íslandi, og Franek Rozwadowski, fastafulltrúa sjóðsins hér á landi, í Seðlabankanum í gær.

Kozack lýsti því yfir að eftir viðræður við embættismenn, þingmenn, fræðimenn, fulltrúa vinnuveitenda og launþega hefði nefndin komist að því að landinu miðaði vel áfram og ljóst væri að hagkerfið væri farið að taka við sér.

Hún sagði útlit fyrir hagvöxt á þessu ári í fyrsta sinn frá bankahruni, verðbólga væri að nást niður og skuldir hins opinbera og einkageirans lækkuðu óðum.

Þá sagði Kozack að vonir stæðu til að hægt væri að slaka á gjaldeyrishöftum áður en sjóðurinn lyki samstarfinu við Íslendinga í sumarlok.

Mesta áhyggjuefnið sagði hún vera atvinnuleysið. Helsta verkefni stjórnvalda og sjóðsins væri að draga úr því. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×