Viðskipti innlent

Utanlandsferðir jukust um rúm 25% í desember

Í desember síðastliðnum héldu mun fleiri Íslendingar erlendis en á sama tíma árið 2009, eða um 20.300 á móti 16.100. Þetta jafngildir aukningu upp á ríflega fjórðung.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þessi aukning er í takti við þá þróun sem varð á síðasta ári. Þannig varð stöðug fjölgun á brottförum Íslendinga erlendis miðað við sama tíma árið 2009 í hverjum mánuði, þó að aprílmánuði undanskildum þegar eldgosið í Eyjafjallajökli lét mest á sér bera.

Á nýliðnu ári voru brottfarir Íslendinga um Leifsstöð þannig um 293.800 talsins, sem er aukning upp á 15,4% frá árinu 2009.

Það að landinn hafi verið meira á faraldsfæti á nýliðnu ári á sér eflaust margar skýringar en líklegast má einna helst rekja þá þróun til aukins kaupmáttar hans á erlendri grundu með hækkun á nafngengi krónunnar.

Annað sem má nefna hér til sögunnar er að töluvert dýrara var fyrir landann að ferðast innanlands á árinu 2010 en 2009. Þannig var eldsneyti um 20% dýrara og flugfargjöld innanlands hækkuðu um 10% á sama tíma og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um tæp 6%.

Nokkuð ljóst er að enn er töluvert í land að Íslendingar ferðist jafn mikið til útlanda og á hinu mikla neysluári 2007 þegar brottfarir þeirra um Leifsstöð voru um 452 þúsund, eða ríflega helmingi fleiri en á nýliðnu ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×