Viðskipti innlent

Gistinóttum fækkar um tæp 2%

Gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum voru 70.300 en voru 71.500 í sama mánuði árið 2009. Þetta er tæplega 2% fækkun.

Á vefsíðu Hagstofunnar segir að gistinóttum í nóvember fækkaði hlutfallslega mest á Vesturlandi og Vestfjörðum eða um 22%, voru ríflega 1.700 samanborið við 2.200 í nóvember 2009. Á Suðurnesjum voru tæplega 3.000 gistinætur í nóvember, en það er um 5% minna en árið áður.

Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði gistinóttum einnig um 5%, voru 52.500 samanborið við 55.000 í nóvember 2009. Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öðrum landshlutum. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 37%, voru 1.100 samanborið við 800 í nóvember 2009. Á Suðurlandi voru 8.800 gistinætur í nóvember sem er 21% aukning frá fyrra ári. Á Norðurlandi voru gistinætur í nóvember tæplega 3.200 og fjölgaði um 4% miðað við nóvember 2009.

Gistinóttum erlendra gesta fækkaði um rúm 2% samanborið við nóvember 2009 á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um tæplega 1%.

Gistinætur fyrstu ellefu mánuði ársins voru 1.236.900 en voru 1.277.800 á sama tímabili árið 2009. Gistinóttum fjölgaði á Suðurnesjum um 3% og á Vesturlandi og Vestfjörðum um 2%. Gistinóttum fækkar í öðrum landshlutum, Austurlandi um 5%, á Norðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu um 4%. Á Suðurlandi er fjöldi gistinátta sambærilegur og á fyrra ári.

Fyrstu ellefu mánuði ársins hefur gistinóttum Íslendinga sem og erlendra gesta fækkað um 3% ef miðað er við sama tímabil árið 2009.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×