Handbolti

Ísland mætir Brasilíu í kvöld

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Javier Cuesta er landsliðsþjálfari Brasilíu. Hér fylgist hann með sínum mönnum gegn Austurríki í gær.
Javier Cuesta er landsliðsþjálfari Brasilíu. Hér fylgist hann með sínum mönnum gegn Austurríki í gær. AFP
Ísland mætir Brasilíu í næsta leik sínum á HM í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport eftir veglega upphitun.

Ísland þarf að halda einbeitingu eftir frábæran sigur gegn Ungverjum en það verður að segjast eins og er að um algjöran skyldusigur á að vera um að ræða í kvöld.

Brassar eru ekki hátt skrifaðir og Ísland á ekki að þurfa sinn besta leik til að vinna. Líklegt er að Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari hvíli einhverja leikmenn í kvöld sem mikið hefur mætt á, til að mynda Ólaf Stefánsson.

Þrjú lið frá Suður-Ameríku taka þátt á HM. Argentína varð í fyrsta sæti eftir sigur á Brasilía í framlengdum úrslitaleik og Chile í þriðja sæti.

Brassar töpuðu fyrsta leiknum sínum á mótinu fyrir Austurríki með tíu marka mun. Þar skaraði enginn fram úr hjá liðinu en alls komust ellefu leikmenn á blað. Tveir leikmenn skoruðu fjögur mörk, Thiagus Santos og Leonardo Bortolini.

Þetta er í níunda sinn í röð sem Brassar spila á HM. Best náðu þeir 16 sæti árið 1999. Á HM í Króatíu fyrir tveimur árum lentu þeir í 21. sæti.

Þrátt fyrir að handbolti sé í ágætum uppgangi í Brasilíu er liðið ekki sterkt á alþjóðlegan mælikvarða. Haldi strákarnir okkar sama leik og undanfarið á ekki að vera spurning um hvernig fer að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×