Viðskipti innlent

Miklar sveiflur á íbúðaverði milli mánaða

Miklar sveiflur eru í íbúðaverði á milli mánaða. Þannig lækkaði íbúðaverð um 1,2% í desember síðastliðnum samkvæmt mælingum Þjóðskrár Íslands. Íbúðir í sérbýli lækkuðu um 1% frá fyrri mánuði í desember og íbúðir í fjölbýli lækkuðu um 1,3%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði lítillega að nafnverði á síðasta ári eða um 0,2% samkvæmt mælingum Þjóðskrár Íslands sem birti vísitölu íbúðaverðs í desember í gær. Að teknu tilliti til verðbólgu lækkaði íbúðaverð hinsvegar um rúm 3% á árinu. Hvort sem litið er til þróunar nafnverðs eða raunverðs er ljóst að spár um miklar verðlækkanir á þessum markaði á árinu gengu ekki eftir.

Viðskipti með íbúðarhúsnæði hafa heldur verið að glæðast undanfarna mánuði. Í desember mánuði síðastliðnum voru samtals gerðir 313 kaupsamningar um íbúðarhúnsæði á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands sem er fjölgun um 11,4% frá fyrri mánuði og fjölgun um 48,3% frá sama mánuði fyrra árs.

Heildarvelta kaupsamninga í desember síðastliðnum nam 9,1 milljarði kr. og meðalupphæð á hvern kaupsamning nam 29,1 milljón kr. Eftir mikla lægð virðist áhugi á íbúðarkaupum því vera að glæðast á ný. Til viðbótar við ofangreindar tölur má nefna að vísitala Capacent Gallup sem mælir áhuga landsmanna á fyrirhuguðum húsnæðiskaupum hefur ekki mælst hærri síðan í september fyrir hrun.

Vísitalan sem birt var í desember mælist nú 7 stig sem er 2,7 stigum hærri en í síðustu mælingu sem fram fór í september síðastliðnum. Þrátt fyrir að veltan sé nú að aukast er hún enn mjög lítil miðað við það sem áður var en á tímabilinu 2003-2008 voru að meðaltali gerðir 750 kaupsamningar í mánuði hverjum eða ríflega helmingi fleiri samningar en gerðir voru í desember síðastliðnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×